Rússneski þingmaðurinn Igor Lebedev hefur kallað eftir því að slagsmál milli stuðningsmanna á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu sem fram undan er í Rússlandi verði gerð lögleg.
Lebedev þessi, sem er mikill stuðningsmaður Vladimir Pútín Rússlandsforseta, vill að eftirlit verði haft með slagsmálunum og þau gerð að einskonar skemmtiefni fyrir áhorfendur. Lebedev er ekki sá eini sem er fylgjandi þessu því rússneski njósnarinn Anna Chapman hefur einnig kallað eftir umræðu um málið.
Lebedev er þeirrar skoðunar að ómögulegt verði að stöðva slagsmál milli stuðningsmannahópa nokkurra þátttökuþjóða HM. Rússar hafa lengi haft slæmt orð á sér hvað þetta varðar og er skemmst að minnast þess þegar upp úr sauð í Marseille á EM 2016 þegar Rússum og Englendingum lenti saman.
Lebedev segir að í stað þess að slagsmál fari fram á götum úti geti stuðningsmannahóparnir skorað hvor annan á hólm, ef svo má segja. Hóparnir yrðu leiddir saman á afviknu svæði, 20 á móti 20 og engin vopn leyfð.
Afar ólíklegt er að Lebedev verði að ósk sinni enda hafa rússnesk stjórnvöld markvisst reynt að berjast gegn fótboltabullum, einstaklingum sem svífast einskiss í leit að slagsmálum og vandræðum í kringum leiki. FSB, rússneska öryggislögreglan, mun fylgjast vel með skipulögðum glæpahópum og hefur sent út skýr skilaboð til þeirra að tekið verði fast á hverskonar uppþotum í tengslum við mótið.