Íslenska karlalandsliðið gerði jafntefli við Gana í kvöld en liðin áttust við á Laugardalsvelli í æfingaleik.
Þeir Kári Árnason og Alfreð Finnbogason skoruðu mörk Íslands í 2-2 jafntefli en bæði mörkin komu í fyrri hálfleik.
Gana kom gríðarlega sterkt til leiks í síðari hálfleik og skoraði liðið tvö mörk og 2-2 jafntefli niðurstaðan.
Hér má sjá einkunnirnar úr leiknum.
Hannes Þór Halldórsson 6
Öruggur í því sem hann átti að gera, gat ekkert gert í mörkunum.
Hólmar Örn Eyjólfsson 5
Skilaði sínu hlutverki varnarlega vel en var ekki alltaf í takt sóknarlega. Eðlilega enda alltaf að spila sem miðvörður.
Kári Árnason 5
Mjög öflugur í fyrri hálfleik en gaf eftir í þeim seinni.
Ragnar Sigurðsson 5
Var að spila vel í leiknum en misst einbeitinguna um stund í seinna marki Gana.
Ari Freyr Skúlason 7
Öflugur leikur hjá Ara, hefur mátt þola mikla bekkjarsetu undanfarið en kom sterkur inn í dag.
Jóhann Berg Guðmundsson 8
Er að stimpla sig inn sem næst besti leikmaður liðsins á eftir Gylfa, öruggur á boltann og með frábæra bolta úr föstum leikatriðum.
Gylfi Þór Sigurðsson (´67) 8 – Maður leiksins
Stjarna liðsins stóð undir nafni, allir leikmenn Íslands spila betur með Gylfa innan vallar.
Emil Hallfreðsson 5
Það virðist henta leik Emils betur að spila í þriggja manna en tveggja manna miðju.
Birkir Bjarnason (´76) 8
Gerði virkilega vel í öðru marki Íslands og er mjög öruggur í þessari tveggja manna miðju.
Alfreð Finnbogason (´65) 7
Þefar upp mörkin, Alfreð er okkar besti maður í að skora mörk. Þefaði upp annað markið.
Björn Bergmann Sigurðarson 5
Kröfugur og duglegur en vantaði örlítið að tengja betur í spil liðsins.
Varamenn:
Jón Daði Böðvarsson (´65) 5
Komst ekki í neinn alvöru takt við leikinn.
Rúrik Gíslason (´67) 5
Komst ekki í takt við leikinn.