,,Ég segi no comment,“ sagði Emil Hallfreðsson landsliðsmaður Íslands þegar borið var undir hann að hann hefði svo gott sem svindlað í golfmóti hjá landsliðinu í gær.
Emil spilaði á ótrúlegu skori miðað við það að vera með 36 í forgjöf, hann hefur grunn frá yngri árum en hefur varla snert golfkylfu í 10 ár.
,,Ég hef ekki spilað golf í mörg ár, svo fer maður þarna á Korpúlfsstaði og tekur 86 högg. Það er þokkalegt miðað við mann með 36 í forgjöf, ég fékk 57 punkta. Þeir sem þekkja golf vita að það er þokkalegt skor.“
,,Við vorum að reyna að setja einhverja aðra forgjöf á mig eftir hring því hollið mitt græddi svo á mér, ég var óumdeildur sigurvegari gærdagsins.“
Emil var duglegur að spila golf sem krakki og var oftar en ekki hent út af vellinum í Hafnarfirði þar sem hann borgaði ekki vallargjald.
,,Ég er með ágætis grunn, við vorum alltaf í gamla daga. Ég er alinn upp á Holtinu, við vorum oft að svindla okkur inn á Keili Það var verið að reka okkur út af, við áttum ekki pening til að vera í golfklúbbi. Ég hef ekki farið í tíu ár en var alltaf í þessu sem krakki.“
Mikilvægt er fyrir íslenska liðið að hrista hópinn saman áður en haldið er til Rússlands á laugardag.
,,Það er nauðsynlegt að kúpla sig út og gera eitthvað öðruvísi, menn eru ferskir eftir gærdaginn. Þetta var ótrúlega skemmtilegt.“
Viðtalið er í heild hér að neðan.