

Frederik Schram gerði sig sekan um slæm mistök í kvöld en hann stóð vaktina í marki Íslands í 3-2 tapi gegn Norðmönnum.
Frederik reyndi að sóla Joshua King, framherja Noregs, í öðru marki liðsins og kom það verulega í bakið á okkar manni.
,,Þetta er ekki besta tilfinning í heimi. Seinna markið var mér ða kenna og ég hefði átt að gera þetta öðruvísi,“ sagði Frederik.
,,Stundum er þetta svona, það er auðvelt að vera snjall eftir á en það var frábært að spila fyrir þessa áhorfendur og á Laugardalsvelli en þetta fór ekki eins og ég vildi.“
,,Sendingin til baka var ekki sú besta en ég á að höndla þetta. Fyrsta snertingin var í lagi en mér fannst framherjinn vera nálægt mér svo að ef ég myndi sparka boltanum burt hefði hann getað farið í hné og þaðan í markið. Ég hefði átt að sparka þessu í innkast.“
,,Ég er ánægður með tækifærið, þeir vita hvað ég get gert en því miður sýndi ég hvorki þeim né fólkinu hvað í mér býr og ég er mjög sorgmæddur út af því.“
,,Það er aldrei gaman að gera mistök en þetta var í fyrsta sinn sem ég spila fyrir þessa mögnuðu áhorfendur sem gáfu mér gæsahúð. Ég er miður mín vegna mistakana en ég þarf að horfa fram á við.“