
Eins og knattspyrnuáhugafólki er kunnugt um þá lét Ólafur Ingi Skúlason af störfum sem þjálfari U21 landsliðs karla í haust sem leið. Lúðvík Gunnarsson, sem gegnt hafði stöðu aðstoðarþjálfara liðsins, stýrði því í síðasta verkefni ársins sem var leikur gegn Lúxemborg í undankeppni EM, og honum til aðstoðar var Ólafur Helgi Kristjánsson. Íslenska liðið vann 3-1 sigur í leiknum og er Ísland nú með átta stig eftir fimm leiki í undankeppninni og situr í fjórða sæti riðilsins, tveimur stigum á eftir Frökkum sem eru efstir.
Næstu leikir liðsins eru í mars 2026 – heimaleikur gegn Eistlandi og útileikur gegn Frakklandi. Undankeppninni lýkur síðan í haust með heimaleikjum gegn Frökkum og Svisslendingum í september og loks útileik gegn Færeyingum í október.
KSÍ hefur nú ákveðið að Lúðvík og Ólafur verði sameiginlega við stjórnvölinn hjá íslenska liðinu út undankeppnina – sem tveir aðalþjálfarar.
Ásamt því að vera aðstoðarþjálfari U21 landsliðs karla er Lúðvík Gunnarsson einnig þjálfari U17 landsliðs karla. KSÍ hefur ákveðið að þar sem verkefni U21 liðsins skarast á við verkefni U17 landsliðs karla í mars þá muni Ómar Ingi Guðmundsson, sem er þjálfari U15 karla og aðstoðarþjálfari U19 karla auk þess að vera yfirmaður hæfileikamótunar, stýra U17 liðinu í fjarveru Lúðvíks í því verkefni.