Reuben Logan, sonur sjónvarpskonunnar og „Match of the Day“ stjórnandans Gabby Logan, hefur opinberað hvernig umræður foreldra hans um kynlíf hafa haft áhrif á hann sem atvinnumaður í rugby.
Reuben, sem gekk til liðs við Sale Sharks frá Northampton Saints í sumar, er sonur fyrrverandi skoska landsliðsmannsins Kenny Logan.
Kenny greindist með krabbamein í blöðruhálskirtli árið 2022 og gekkst undir árangursríka meðferð og aðgerð. Í bataferlinu ræddu hann og Gabby opinberlega um áhrif krabbameinsins á líf þeirra, meðal annars kynlífið í hlaðvarpi Gabby, The Mid Point.
Þar kom fram að um 76% karla upplifa getuleysi eftir slíkar aðgerðir, samkvæmt rannsóknum. Þau hjónin vonuðust til að umræðan gæti hjálpað öðrum í svipaðri stöðu.
En Reuben viðurkennir að það hafi ekki verið auðvelt að takast á við þetta í nýju starfi. „Ég sagði hreint út. Getið þið vinsamlegast hætt þessu?,“ sagði Reuben við The Telegraph.
„Ég man eftir því að í ræktinni hjá Saints var hlaðvarpið þeirra spilað í hálfan æfingatímann. Þetta var bara þriðji mánuðurinn minn í félaginu.“
Gabby sagði sjálf á síðasta ári að sonur þeirra hefði átt erfitt með að hlusta á ákveðin atriði úr þáttunum, sérstaklega þegar hún greindi frá því að eiginmaður hennar væri „enn fullkomlega virkur“ eftir aðgerðina.
„Hann sagði við mig: Mamma, geturðu vinsamlegast hætt að tala um kynlífið ykkar? Núna fer ég í vinnuna og þeir spila brot úr viðtölunum í búningsklefanum. Það væri virkilega hjálplegt ef þú gætir bara þagað um stund,“ sagði Gabby.
Hún bætti svo við: „Reuben, þátturinn í næstu viku… hann fjallar reyndar um þetta. Við tölum reyndar ekki bara um kynlífið mitt, skal ég taka fram,“ sagði hún og hló.