Walker hefur almennt verið talinn einn allra fljótasti leikmaður deildarinnar undanfarin ár. Hann er vissulega orðinn 33 ára og kannski aðeins farinn að hægjast á kappanum.
The Sun birtir í dag lista yfir hröðustu spretti ensku úrvalsdeildarinnar í vetur og þar kemur í ljós að miðvörður Tottenham, Hollendingurinn Micky van de Ven, er sá fótfráasti í vetur. Hefur hann mælst á 37,38 kílómetra hraða.
Í öðru sæti er Chiedozie Ogbene, leikmaður Luton, og í þriðja sæti er Pedro Neto leikmaður Wolves. Fljótasti leikmaður Liverpool er Ungverjinn Dominik Szoboszlai en hann er jafnframt fjórði hraðasti leikmaður deildarinnar.
Það virðist ekki koma stuðningsmönnum Tottenham mikið á óvart að van de Ven sé efstur á blaði.
„Van de Ven er fljótasti leikmaðurinn sem ég hef séð í Tottenham-treyjunni – og ég horfði á Kyle Walker í sjö ár,“ sagði einn og bætti við að Walker ætti ekki möguleika í Van de Ven.