Aðdáendur franska knattspyrnuliðsins FC Troyes eru í þeirri fáránlegu stöðu að liðið þeirra er í bullandi fallhættu en á sama tíma hefur metfjárfesting þeirra á leikmannamarkaðinum, sem keyptur var árið 2022, ekki enn spilað leik fyrir liðið.
Klúbburinn, sem er frá samnefndri borg nokkurn veginn í miðju Frakklands, á sér ekki beint langa og glæsta sögu í Frakklandi en helstu afrekin voru þau að komast nokkrum sinnum í efstu deild Frakklands og vinna sér þátttökurétt í Intertoto-keppninni í byrjun aldarinnar.
Ætla má að aðdáendur liðsins hafa talið að bjartari tímar væru í vændum þegar stórfyrirtækið City Football Group, móðurfélag enska stórliðsins Manchester City, keypti meirahluta í klúbbnum í september árið 2020. Troyes voru þá í annarri deild franska fótboltans en þetta keppnistímabil gekk allt upp og liðið tryggði sér aftur sæti í deild þeirra bestu.
Um skammgóðan vermi var að ræða því keppnistímabilið 2022-2023 féll liðið úr efstu deild og hörmungargengið hefur haldið áfram á þessu keppnistímabili. Troyes situr í 15. sæti af 20 liðum í Ligue 2 og eru aðeins fjórum stigum frá fallsæti.
Aðdáendur liðsins voru eflaust spenntir sumarið 2022 þegar tilkynnt var um kaup liðsins á brasilíska ungstirninu Savio fyrir metfé. Kaupverðið var 6 milljónir evra sem gæti tvöfaldast ef frammistaða leikmannsins væri góð. Mánuði eftir kaupin var Savio hins vegar lánaður til PSV Eindhoven í Hollandi. Eftir rólegt tímabil þar var Savio síðan lánaður til Girona á Spáni, sem einnig er í eigu City Football Group, og þar hefur hinn 19 ára gamli knattspyrnumaður slegið rækilega í gegn og er nú einn eftirsóttasti ungi leikmaður heims.
Svo vel hefur hann staðið sig að í gær var tilkynnt um að Manchester City hefði keypt leikmanninn frá venslafélagi sínu Troyes. Aðdáendur franska liðsins munu því aldrei njóta krafta leikmannsins sem keyptur var á metfé til félagsins.