fbpx
Þriðjudagur 30.apríl 2024
Sport

Kínagullið glóir

Fimm af 14 launahæstu leikmönnum heims spila í Kína – Launamisskiptingin hvergi meiri en í ofurdeildinni

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 24. nóvember 2016 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Liðum í kínversku ofurdeildinni í knattspyrnu hefur á undanförnum misserum tekist að sópa til sín fjölmörgum leikmönnum í hæsta gæðaflokki til að auka veg og virðingu kínverskrar knattspyrnu. Gríðarlegar fjárhæðir eru í spilunum og hafa lið bæði greitt fúlgur fjár til evrópskra félaga fyrir þessa leikmenn og leikmönnunum sjálfum ótrúlegar upphæðir í laun. Eins og staðan er núna eru fimm af fjórtán launahæstu leikmönnum heims að spila í efstu deild í Kína.

Stjarna freistað

Stjörnur á borð við Hulk, Ezequiel Lavezzi og Ramires eru á meðal þeirra sem gengið hafa til liðs við kínversk félög að undanförnu. Þess ber að geta að íslenski landsliðsframherjinn, Viðar Örn Kjartansson, lék eitt tímabil með Jiangsu Sainty í Kína í fyrra.

Launahæstu leikmenn heims

Launahæstu leikmenn heims
  1. Cristiano Ronaldo – Real Madrid

  2. Lionel Messi – Barcelona

  3. Gareth Bale – Real Madrid

  4. Hulk – Shanghai SIPG

  5. Paul Pogba – Manchester United

  6. Graziano Pellé – Shangdong Luneng

  7. Ezequel Lavezzi – Hebei China Fortune

  8. Wayne Rooney – Manchester United

  9. Neymar – Barcelona

  10. Zlatan Ibrahimovich – Manchester United

Margir þeirra þekktu leikmanna sem ákveðið hafa að elta launin til Kína að undanförnu hafa í mörgum tilfellum hafnað tilboðum frá heimsþekktum evrópskum félögum í aðdraganda þess.

En þessum stjörnufans fylgir að auðnum er misskipt í ofurdeildinni. Greint hefur verið frá því að 47 leikmenn – eða 10% leikmanna – þéni 81% af heildarlaunum leikmanna í kínverska boltanum. Engin önnur deild státar af öðrum eins launaójöfnuði.

Tevez næstur?

Nú berast fregnir af því að ónefnt félag í Kína hafi áhuga á að fá argentínska framherjann Carlos Tevez til liðs við sig. Heimildir herma að tilboðið sem hinn 32 ára gamli Tevez hafi fengið í hendurnar myndi gera hann að langlaunahæsta leikmanni heims. Hann myndi fá sem nemur 4,8 milljörðum króna í árslaun.

Tevez sneri aftur til Boca Juniors í heimalandinu í fyrra eftir farsælan 11 ára feril utan Argentínu, þar sem hann lék meðal annars með West Ham, Man Utd, Man City og Juventus. Hann er sagður hafa hafnað tilboði frá Kína áður, en nýja ofurtilboðið muni reyna virkilega á tryggð hans við uppeldisfélagið, slíkar séu upphæðirnar sem um ræðir. Þá hefur fyrrverandi liðsfélagi hans hjá Man Utd, Wayne Rooney, verið orðaður við kínversk félög.

Dýrastur en ekki launahæstur

Þeir yrðu ekki fyrstu leikmennirnir til að tryggja fjárhagslega framtíð sína með einu til tveimur tímabilum í Austurlöndum fjær. DV tók saman nokkra af launahæstu leikmönnum kínversku ofurdeildarinnar. Athygli vekur að dýrasti leikmaður í sögu deildarinnar, Brasilíumaðurinn Alex Teixeira, sem keyptur var í ársbyrjun á 42 milljónir punda, kemst ekki á topp fimm listann. Árslaun þeirra eru í íslenskum krónum.


Brasilíski framherjinn Hulk þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af fjárhag sínum ef hann heldur rétt á spilunum.
Kraftakall Brasilíski framherjinn Hulk þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af fjárhag sínum ef hann heldur rétt á spilunum.

Mynd: EPA

1 – Hulk

Félag: Shanghai SIPG
Aldur: 30 ára
Árslaun: 2,4 milljarðar króna
Brasilíski kraftframherjinn er launahæsti leikmaður kínversku deildarinnar og fjórði launahæsti leikmaður heims á eftir aðeins Cristiano Ronaldo, Lionel Messi og Gareth Bale. Hann vakti fyrst athygli með Porto en var seldur til Zenit í Pétursborg fyrir töluverða upphæð þar til Sven Göran Ericsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari Englands, fékk hann til Shanghai SIPG. Félagið samdi nýverið við þjálfarann Andre Villas Boas sem fær 1,5 milljarða á ári fyrir að stýra liðinu. Nóg til á þeim bænum.


Flestir myndu fagna því jafn innilega og Pellé hér ef þeir væru með launin hans.
Sáttur Flestir myndu fagna því jafn innilega og Pellé hér ef þeir væru með launin hans.

Mynd: EPA

2 – Graziano Pellé

Félag: Shangdong Luneng
Aldur: 31 árs.
Árslaun: 2 milljarðar króna
Ítalski framherjinn sló í gegn hjá Southampton og spilaði sig meðal annars inn í ítalska landsliðið. En þegar Shangdong Luneng bauð honum tæpa tvo milljarða króna á ári fyrir að skora í Kína þá stóðst hann ekki boðið. Það er nóg til að gera hann að 6. launahæsta leikmanni heims, rétt á eftir Paul Pogba, miðjumanni Man Utd. Með fullri virðingu fyrir Pellé, þá datt hann í lukkupottinn.


Lavezzi var á fínum launum í París og þau lækkuðu ekki við að fara til Hebei.
Eftirsóttur Lavezzi var á fínum launum í París og þau lækkuðu ekki við að fara til Hebei.

Mynd: EPA

3 – Ezequiel Lavezzi

Félag: Hebei China Fortune
Aldur: 31 árs.
Árslaun: 1,9 milljarðar króna
Argentínski framherjinn hafði átt góð ár hjá Napoli á Ítalíu og var ekki á neinum sultarlaunum hjá PSG í Frakklandi þegar samningur hans rann út hjá félaginu í sumar. Þá kom tilboð frá Hebei sem hann gat ekki hafnað. Samningurinn gerir hann að 7. launahæsta leikmanni heims, rétt á eftir Pellé, og þénar hann meira en stjörnur á borð við Wayne Rooney, Neymar og Zlatan Ibrahimovic sem skipa restina af topp 10 heimslistanum. Ótrúlegar upphæðir í því samhengi, sem ekkert þeirra liða sem vildu semja við hann í sumar gátu jafnað.


Ramires er með báðar lúkur fullar af seðlum eftir að hafa fært sig til Kína.
Gull í greipum Ramires er með báðar lúkur fullar af seðlum eftir að hafa fært sig til Kína.

Mynd: EPA

4 –Ramires

Félag: Jiangsu Suning
Aldur: 29 ára
Árslaun: 1,6 milljarðar króna
Brasilíski miðjumaðurinn fór óvænt frá Chelsea í janúar síðastliðnum eftir að ensku meisturunum hafði borist tilboð frá Kína sem þeir gátu ekki hafnað. Chelsea fékk 25 milljónir punda og Ramires, sem var í nokkra daga dýrasti leikmaður deildarinnar, fékk spikfeitan launatékka hjá Jiangsu Suning.


Jackson Martinez má vel við una að hafa fengið risasamning í Kína eftir að hafa átt erfitt uppdráttar á Spáni.
Augun á boltanum? Jackson Martinez má vel við una að hafa fengið risasamning í Kína eftir að hafa átt erfitt uppdráttar á Spáni.

Mynd: EPA

5 – Jackson Martinez

Félag: Guangzhou Evergrande
Aldur: 30 ára
Árslaun: 1,5 milljarðar króna

Martinez hafði gert það gott með Porto í þrjú tímabil en ekki náð sér á strik á einu ári hjá Atletico Madrid þegar Guangzhou Evergrande ákvað að slá met Jiangsu Suning og kaupa Martinez á 36 milljónir punda í febrúar síðastliðnum. Framherjinn frá Kólumbíu gat heldur ekki hafnað 1,5 milljörðum í árslaun eftir slakt gengi á Spáni.


Þessir spila líka í Kína

Fleiri leikmenn sem raka inn seðlum
Alex Teixeira.

Alex Teixeira.

Gervinho – Hebei China Fortune

Obafemi Martins – Shanghai Shenhua

Demba Ba – Shanghai Shenhua

Gael Kakuta – Hebei China Fortune

Alex Teixeira – Jiangsu Suning

Stephane M‘Bia – Hebei China Fortune

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Spáin fyrir Lengjudeild karla: Keflavík spáð beint upp en talið að Afturelding fari aftur í umspilið

Spáin fyrir Lengjudeild karla: Keflavík spáð beint upp en talið að Afturelding fari aftur í umspilið
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Spáin fyrir Lengjudeild kvenna: Aftureldingu spáð sigri – Talið að nýliðarnir fari niður

Spáin fyrir Lengjudeild kvenna: Aftureldingu spáð sigri – Talið að nýliðarnir fari niður
433Sport
Fyrir 21 klukkutímum

Svona er tölfræði Mo Salah fyrir og eftir áramót

Svona er tölfræði Mo Salah fyrir og eftir áramót
433Sport
Fyrir 22 klukkutímum

Sjáðu hegðun markvarðar KR í gær – Ýtti öllum börnum í burtu sem urðu á vegi hans

Sjáðu hegðun markvarðar KR í gær – Ýtti öllum börnum í burtu sem urðu á vegi hans