Kviðdómur komst að þessari niðurstöðu í gær eftir margra vikna réttarhöld og er Donna sú fimmta sem sakfelld er í þessu sorglega máli.
Daniel var lagaprófessor við Florida State University í Tallahassee og í hjónabandi með konu að nafni Wendi Adelson, dóttur Donnu. Þegar þau skildu deildu þau forræði yfir tveimur ungum börnum sínum, en Wendi vildi flytja með börnin til Suður-Flórída til að vera nær foreldrum sínum og systkinum.
Þar sem um 600 kílómetra leið var að ræða tók Daniel það ekki í mál og fór forræðismálið alla leið fyrir dóm. Þar var niðurstaðan sú að Wendi mætti ekki flytja með börnin.
Í kjölfarið virðist fyrrverandi tengdafjölskylda hans hafa lagt á ráðin um að koma Daniel fyrir kattarnef. Sonur Donnu og bróðir Wendy, Charles Adelson, afplánar þegar lífstíðardóm vegna málsins sem og eiginkona hans, Katherine Magbanua. Katherine er sögð hafa verið milliliður fyrir tvo menn sem voru ráðnir til þess að drepa Daniel.
Annar þeirra, Sigfredo Garcia, afplánar lífstíðardóm og hinn, Luis Rivera, afplánar 19 ára fangelsisdóm eftir að hann samdi við ákæruvaldið og veitti mikilvægar upplýsingar sem vörpuðu ljósi á málið. Ekki er talið að Wendi, fyrrverandi eiginkona Daniels, hafi verið viðriðin málið. Hún hefur að minnsta kosti ekki verið ákærð.
Í frétt AP kemur fram að saksóknarar hafi lýst Donnu sem „útsmoginni og valdamikilli ættmóður“ í hinni vellauðugu fjölskyldu. Hún hefði haft fjárráð og tilefni til að skipuleggja morðið á fyrrverandi tengdasyni sínum sem hún „hataði“ af öllu hjarta.
Donna, sem er 75 ára, neitaði aftur á móti sök og sögðu verjendur hennar að ákæruvaldið hefði ekki nægar sannanir til að tengja hana við morðið.
Þegar niðurstaðan var tilkynnt er Donna sögð hafa grátið og skolfið. Dómari bað kviðdómendur í kjölfarið um að yfirgefa salinn á meðan hún náði áttum og jafnaði sig. Endanleg refsing hefur ekki verið ákveðin en dómari sagði að hún verði tilkynnt þann 14. október næstkomandi. Getur Donna vænst þess að fá lífstíðardóm.