Þó að hálf öld sé liðin frá frumsýningu myndarinnar má segja að leikarar myndarinnar – einn að minnsta kosti – græði enn í dag fúlgur fjár á henni.
Jeffrey Voorhees var aðeins 12 ára gamall þegar hann fékk lítið aukahlutverk í myndinni. Fór hann með hlutverk Alex Kintner, ungs drengs sem var drepinn af hákarlinum. Hann var í alls fimm daga á tökustað en atriðið sem hann leikur í er einungis ein mínúta að lengd.
Á þessum tíma hefur Jeffrey væntanlega ekki áttað sig á því að hann myndi hafa lifibrauð sitt af myndinni 50 árum síðar, en það er engu að síður staðreynd.
Jeffrey, sem er orðinn 62 ára, ferðast vítt og breitt um heiminn til að taka þátt í allskyns viðburðum vegna myndarinnar. Hann rukkar tíu þúsund dollara, rúmlega 1,2 milljónir, fyrir hvern viðburð og það virðist ekki fæla aðdáendur hans frá því að fá hann.
Þá er hann með aðgang á vefsíðunni Cameo þar sem fólk getur keypt sérsniðnar kveðjur frá frægu fólki. Fyrir hvert myndband rukkar hann 26 dollara, 3.200 krónur. Í umfjöllun breska blaðsins Independent kemur fram að hann fái allt að 25 beiðnir á dag.
Í viðtali við Independent segir Jeffrey að í fyrstu hafi hann verið tregur til við að stökkva á þessa „nostalgíulest“ ef svo má segja. Hann ákvað þó að slá til árið 2017 og hefur ekki litið um öxl síðan þá.
„Ég sagði alltaf að ég hefði engan tíma í þetta,“ rifjar hann upp og heldur áfram: „Svo kom að því að ég sagði: Af hverju ekki? Ég get allavega prófað þetta.“
Hann segir að fyrsti viðburðurinn hafi verið í New York en síðan þá hefur hann einnig opnað vefsíðu þar sem hann selur ýmsan varning sem tengist Jaws. „Þetta endaði eiginlega þannig að ég hætti að vinna því ég hef meira upp úr þessu,“ segir hann.
Hann rifjar svo upp að á ráðstefnu einni í Chicago hafi 14 ára stúlka komið upp að honum og grátið gleðitárum. „Foreldrar hennar voru búnir að keyra í fimm klukkustundir svo hún gæti komið og séð mig. Og ég er í myndinni í eina mínútu! Þetta er súrrealískt.“
Í tilefni þess að 50 ár eru nú liðin frá frumsýningu myndarinnar hafa mörg kvikmyndahús tekið upp á því að endursýna myndina.