Sewell er nýnasisti og leiðtogi öfgahópsins National Socialist Network og hefur hann verið undir eftirliti öryggisyfirvalda í Ástralíu.
Sewell var handtekinn á þriðjudag og kærður fyrir ofbeldisbrot, óeirðir, líkamsárás og notkun á vopni eftir að ráðist var á aktívista úr röðum frumbyggja í borginni Melbourne.
Sewell er fæddur á Nýja-Sjálandi og með þeim rökum hefur verið hvatt til þess að honum verði vísað úr landi og settur í endurkomubann.
Í frétt News.com.au kemur fram að það sé ólíklegt að þetta gangi eftir þar sem hann er þegar ástralskur ríkisborgari og hefur búið í Ástralíu síðan hann var barn.
Á vefnum Change.org hefur verið stofnuð undirskriftasöfnun þar sem lagt er til að lögum verði breytt á þann veg að hægt verði að svipta fólki ríkisborgararétti ef það brýtur af sér með alvarlegum hætti.
Í lýsingu með söfnuninni kemur fram að núgildandi lög geri það „nánast ómögulegt að svipta ofbeldisfulla öfgamenn ríkisborgararétti, jafnvel þótt þeir hafi tvöfalt ríkisfang og séu augljós ógn við almannaöryggi“.
Málið hefur vakið talsvert umtal í Ástralíu og hefur innanríkisráðherra landsins, Tony Burke, meðal annars tjáð sig um það. Segir Burke að Sewell hati augljóslega Ástralíu og miðað við hegðun hans kæmi það ekki á óvart ef Sewell afsalaði sér sjálfur áströlskum ríkisborgararétti.
Ákvarðanir Hæstaréttar árin 2022 og 2023, þar á meðal sú sem staðfesti ríkisborgararétt hryðjuverkamannsins Abdul Benbrika, staðfestu að ekki er hægt að afturkalla ríkisborgararétt vegna glæpa sem framdir voru eftir að ríkisborgararéttur fékkst.
Samkvæmt lögunum má aðeins endurskoða ríkisborgararétt í afmörkuðum tilvikum, til dæmis ef umsókn um ríkisborgararétt var byggð á lygi eða ef umsækjandi leyndi alvarlegu broti sem framið var áður en hann varð ríkisborgari.
Á þriðjudagsmorgun kallaði Sewell forsætisráðherrann Viktoríufylkis, Jacinta Allan, „heigul“ og hrópaði „Heil Australia“ á blaðamannafundi í West Melbourne.
„Þegar fólk eins og ég kemst til valda, verður þessu fólki refsað fyrir glæpi sína gegn Ástralíu,“ sagði hann.