Konurnar standa nú í hatrammri erfðadeilu fyrir breskum dómstólum um tæplega 300 milljóna króna auð James.
James var 55 ára þegar hann lést af völdum krabbameins og var hann þá í sambandi með konu að nafni Margaret Dinsdale. Margaret, rúmlega fertugur snyrtifræðingur, gekk í hjónaband með James í Las Vegas árið 2017.
Það var svo eftir andlát James að Margaret fór að ganga frá málum eiginmannsins að í ljós kom að hann var enn lagalega giftur fyrri konu sinni, tannlækninum Victoriu Fowell.
Hann hafði líka kvænst Victoriu í Las Vegas, árið 2012, en gerði þau mistök, áður en hann kvæntist Margaret, að ganga ekki frá skilnaðinum við Victoriu þó þau hefðu vissulega skilið nokkru fyrr.
Margaret segist hafa staðið í þeirri trú að hún myndi erfa hann sjálfkrafa, en þar sem ekki var búið að ganga frá fyrri skilnaði reyndist síðara hjónabandið ógilt.
James var ekki búinn að gera erfðaskrá fyrir andlát sitt auk þess að starfa sem bókari stundaði hann fjárfestingar. Átti hann til að mynda fasteignir í miðborg Lundúna sem hann hafði hagnast töluvert á.
Samkvæmt lögum eru Victoria og sonur James, William Dinsdale, erfingjar hans en Margaret hefur nú höfðað mál fyrir dómstólum í London þar sem hún krefst hlutdeildar í arfinum. Byggir hún kröfu sína á þeim forsendum að hún hafi gifst James í góðri trú og hún hljóti að teljast „maki” hans samkvæmt erfðalögum.
Í umfjöllun breskra fjölmiðla er haft eftir Margaret að hún hafi engar upplýsingar haft um fyrra hjónaband James og að hún hafi verið fjárhagslega háð honum, þar sem hún hætti í vinnu sinni til að hugsa um hann í veikindum hans.
Dómari hefur nú samþykkt að Margaret megi teljast maki samkvæmt gildandi erfðalögum frá árinu 1975 og að hún eigi rétt á að fá málið tekið fyrir. Þá ákvað dómari að hún fái 50 þúsund pund úr dánarbúinu til standa straum af lögfræðikostnaði vegna málsins. Búist er við því að nokkrir mánuðir hið minnsta muni líða þar til niðurstaða fæst í málið.