Fræg leikkona og söngkona hefur lýst kynferðisbrotum karlkyns nuddara gegn sér, en ákærði, Sundaralingam Koodalingam, hefur verið sakfelldur fyrir tvö kynferðisbrot sem framin voru á nuddstofu í Soho-hverfinu í London í marsmánuði árið 2023.
Konan lýsti þeim þjáningum sem brot nuddarans gegn sér höfðu valdið henni, í skriflegri yfirlýsingu sem saksóknari í málinu las upp eftir að dómur hafði fallið.
Konan nýtur nafnleyndar eins og venja er í kynferðisbrotamálum. Í yfirlýsingunni segist hún hafa klæðst eingöngu nærfötum og handklæði þegar Koodalingam framdi tvær árásir gegn henni, þar sem hún lá á nuddbekknum í myrkvuðu herbergi.
„Enn eitt viðbjóðslegt rándýr hefur verið tekið úr umferð,“ segir leikkonan í yfirlýsingunni, og einnig þetta: „Tugir, ef ekki hundruð kvenna, eru nú öruggari.“
Koodalingam, sem er 36 ára, neitaði ásökununum fyrir dómi og sagði konuna hafa skáldað þær upp.
„Víðfeðm reiðin sem þessi fyrirlitlega mannvera hefur vakið er mikil og mjög, mjög raunveruleg,“ segir leikkonan. Hún segir brotin hafa umturnað lífi hennar og fyllt hana gífurlegu óöryggi í samskiptum við annað fólk. „Starf mitt krefst þess að ég sé full af leikgleði, opin og létt. Sköpunargáfan hefur verið stífluð af ótta og óöryggi,“ segir ennfremur í yfirlýsingu leikkonunnar.
„Ég veit ekki hvort ég get nokkurn tíma orðið eins og sú sem ég var fyrir þennan dag.“
Hún segist hafa ásakað sjálfa sig fyrir að hafa ekki risið upp og barist gegn árásarmanninum í stað þess að liggja frosin á nuddbekknum. „Núna veit ég að ég gerði nákvæmlega ekkert rangt þennan dag.“
Konan segist hafa átt erfitt með að opna sig um málið við vini og segir að einn vinur hafi komið með þessa athugasemd: „Jæja, hann nauðgaði þér að minnsta kosti ekki.“
„Þessi maður tók frá mér traustið, sakleysið og þann eiginleika að geta leyft ókunnugum, sérstaklega karlmönnum, að njóta vafans,“ segir konan ennfremur.
Nuddarinn var fundinn sekur og dæmdur í fjögurra ára fangelsi.
Lesa má um málið í flestum breskum netmiðlum, meðal annars hér.