The Mirror skýrir frá þessu og segir að dómstóll í Buenos Aires í Argentínu hafi dæmd Google til að greiða manninum bætur þar sem fyrirtækið hafi brotið gegn einkalífi hans.
Bíll á vegum Google var að taka myndir af litlum bæ í Buenos Aires héraði og tók meðal annars mynd af manninum þar sem hann var nakinn á veröndinni við heimili sitt. Myndirnar voru birtar á Internetinu.
Maðurinn, sem er lögreglumaður, sagðist hafa staðið bak við tveggja metra háan vegg þegar myndin var tekin af honum en þetta gerðist 2017. Honum til mikillar skelfingar fór myndin á mikið flug á samfélagsmiðlum og einnig var fjallað um hana í sjónvarpi.
Maðurinn ákvað því að leita réttar síns fyrir dómi og sagðist hafa orðið að athlægi vegna málsins.
Hann tapaði málinu á fyrsta dómstigi og sagði dómstóllinn að það hafi verið manninum að kenna að hann náðist nakinn á mynd því hann hafi „gengið um garðinn sinn, ósæmilega til fara“. Dómarinn sagði einnig að „eini aðilinn sem getur borið kennsl á nakta manninn, er maðurinn sjálfur“.