Umdeildi þingmaður fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, Marjorie Taylor Greene, stendur á krossgötum. Hún telur sig ekki lengur eiga samleið með Repúblikanaflokknum sem hafi snúið bakinu við mikilvægum hópum og málefnum.
Hún segir í samtali við Daily Mail:
„Ég veit ekki hvort Repúblikanaflokkurinn sé að fara frá mér, eða hvort ég sé bara ekki að tengja mikið við flokkinn lengur. Miðað við þá vegferð sem flokkurinn er í vil ég ekkert hafa með hann að gera.“
Hún gagnrýnir sérstaklega hvernig komið er fram við stjórnmálakonur innan flokksins. Þar sé óhæfum karlmönnum frekar hampað en hæfum konum. Nefnir hún dæmi um Mike Waltz sem var þjóðaröryggisráðgjafinn sem bætti óvart blaðamanni í spjallhóp ráðamanna sem ræddu þar trúnaðarmál. Klúðrið vakti mikla athygli og kallast í daglegu tali Signal-hneykslið. Frekar en að láta Waltz sæta raunverulegum afleiðingum var hann látinn segja af sér sem þjóðaröryggisráðgjafi og fékk þess í stað sendiherrastöðu hjá Sameinuðu þjóðunum, staða sem þegar hafði verið lofuð þingkonunni Elisa Stefanik.
Marjore gagnrýnir að þarna hafi góð staða verið tekin af efnilegri stjórnmálakonu til að verðlauna Waltz fyrir neyðarlegt klúður. Þetta mál sýni hvaða augum flokkurinn lítur konur.
„Mike Johnsons [forseti fulltrúadeildar] sveik hana og Hvíta húsið sveik hana. Ég áfellist ekki Trump sérstaklega heldur fólkið í Hvíta húsinu. Ég held að það séu fleiri konur í flokknum sem eru komnar með nóg af því hvernig karlmenn koma fram við repúblikanakonur.“
Þingmaðurinn telur að flokkurinn hafi eins snúið bakinu við venjulegu fólki og þeirra hagsmunum.
„Veistu ég veit ekki hvað í fjandanum kom fyrir Repúblikanaflokkinn, ég hef ekki hugmynd,“ segir Marjorie sem segist sakna þess að barist sé fyrir kosningaloforðum á borð við að vinna bug á verðbólgu, draga úr þróunar- og hernaðaraðstoð við erlend ríki, draga úr útgjöldum og lækka skuldir ríkissjóðs.
Marjorie segist nú alvarlega íhuga að segja sig úr flokknum þrátt fyrir að hafa verið gallhörð MAGA-kona síðan hún hóf afskipti sín af stjórnmálum árið 2021.
„Ég þurfti að sigra átta karlmenn og virkilega rústa einum í prófkjörinu, og mér tókst það. Prófkjör skiptir öllu í mínu umdæmi og ég gerði þetta allt sjálf. Ég fékk ekki hjálp frá neinum, ekki frá forsetanum og ekki frá Mike Johnson.“
Þingmaðurinn hefur vakið athygli undanfarin ár fyrir að liggja ekki á skoðunum sínum, sem stundum þykja öfgafullar, og fyrir að básúna samsæriskenningum. Höfðu vinstrimenn illan bifur á henni og þóttu hún standa fyrir allt það öfgafyllsta í herbúðum Trump. Margir hafa þó skipt um skoðun undanfarna mánuði því Marjorie hefur ekki verið feimin við að vera ósammála Trump. Meðal annars hefur hún gagnrýnt framgöngu Ísrael gegn Palestínu sem hún kallar hiklaust þjóðarmorð. Marjorie hefur eins ekki látið sér nægja skýringar Trump og ríkisstjórnar hans í Epstein-málinu alræmda og hún fordæmdi árás Bandaríkjanna á Íran. Sumir vinstri menn hafa því tekið hana í sátt, því þó að þeir séu algjörlega ósammála henni í flestum málum hafi þingmaðurinn sýnt að hún er samkvæmt sjálfri sér og í pólitíkinni getur slíkt verið sjaldgæft.