CNN fjallaði um málið og kemur fram í þeirri umfjöllun að dæmi séu um að dýnum hafi verið stolið, kaffivélum og jafnvel uppstoppuðum dýrum. Þetta kom fram í könnun sem var gerð hjá 1.157 fjögurra og fimm stjörnu hótelum.
49 hótel sögðu að dýnum hefði verið stolið frá þeim á síðustu tveimur árum. Slíkir þjófnaðir eiga sér yfirleitt stað á nóttinni þegar gestamóttakan er ekki opin. Á upptöku úr eftirlitsmyndavélum hefur fólk sést flytja dýnur úr herbergjum í lyftur og síðan út af hótelum.
Handklæði, náttsloppar og fatahengi eru öllu meðfærilegri enda er vinsælt að stela þessum hlutum. En stærri hlutir sleppa ekki, eins og dæmin með dýnurnar sýna, og voru hlutir á borð við borðtölvur og sjónvörp nefndir til sögunnar. Uppstoppað svínshöfuð freistaði gesta á hóteli í Frakklandi og hvarf það þegar gestirnir skráðu sig út.
Könnunin leiddi í ljós að þeir sem gista á fimm stjörnu hótelum hafa mestan áhuga á sjónvörpum, borðtölvum og dýnum en gestir á fjögurra stjörnu hótelum hafa mestan áhuga á fjarstýringum og rafhlöðum.