Katelynn, sem var ólétt og komin sjö mánuði á leið, var í bíl með unnusta sínum á sunnudag þegar ökumaður annarrar bifreiðar skaut úr byssu sinni á bílinn.
Ekki vildi betur til en svo að kúlan hafnaði í höfði Katelynn. Hún var flutt alvarlega særð á sjúkrahús og lést hún af sárum sínum á þriðjudag.
Læknar framkvæmdu keisaraskurð á Katelynn skömmu eftir að hún var flutt á sjúkrahús og kom heilbrigð stúlka í heiminn – á sama tíma og móðir hennar barðist fyrir lífi sínu.
Lögregla segir að eitthvað ósætti hafi komið upp á milli ökumannanna sem endaði með þessum mikla harmleik. Ökumennirnir hafi verið að elta hvorn annan og bremsa skyndilega.
Byssumaðurinn, Barry West, 54 ára, segist hafa skotið á bílinn þar sem hann taldi að einhver úr hinum bílnum hefði skotið á hann. Lögregla fann engin merki um slíkt og ekkert skotvopn fannst í bifreiðinni sem Katelynn var í.
Barry hefur verið ákærður fyrir morð af annarri gráðu, ólöglegan vopnaburð og fyrir að hindra framgang réttvísinnar. Hann á þungan fangelsisdóm yfir höfði sér.
„Þarna er barn sem situr eftir móðurlaust og einstaklingur sem mun líklega aldrei líta dagsins ljós aftur aftur,“ segir Gerald Sticker, sýslumaður í Tangipahoa þar sem atvikið átti sér stað. Hann bætir við að á samfélagsmiðlum hafi birst frásagnir af því að West hafi áður ekið með vafasömum hætti.