The Independent skýrir frá þessu og segir að mikil þróun hafi orðið á þessu sviði, það er að segja að græða líffæri úr dýrum í fólk, á síðustu árum. Vísindamenn hafa lengi talið það vænlegan kost að græða nýru, hjörtu og lifur úr svínum í fólk.
Vísindamenn við Guangzhou læknaháskólann græddu nýlega svínslunga í mann. Búið var að genabreyta lunganu áður en það var grætt í heiladauðann 39 ára karlmann. Þetta kemur fram í rannsókn kínversku vísindamannanna sem hefur verið birt í vísindaritinu Nature Medicine.
Áður en lungað var tekið úr svíninu breyttu vísindamennirnir sumum af genum svínsins sem gátu virkjað ónæmiskerfi mannsins eftir ígræðsluna.
Vinstra lunga svínsins var grætt í manninn. Áður hafði lyfjum, sem bæla ónæmiskerfið, verið sprautað í hann. Vísindamennirnir fylgdust síðan vandlega með viðbrögðum ónæmiskerfisins og virkni lungans.
Ónæmiskerfi mannsins hafnaði lunganu ekki strax og starfaði í níu daga og sýndi engin merki höfnunar eða sýkingar á þeim tíma.
Vísindamennirnir sáu hins vegar merki um skemmdir á lunganu sólarhring eftir ígræðsluna og merki um mótefnahöfnun á þriðja og sjötta degi. Þeir hættu því tilrauninni á níunda degi.