Fjallið er heilagt í augum Japana og mörg þúsund manns klífa það árlega. Þegar á toppinn er komið er hægt að horfa niður í gíg þess því Fuji er eldfjall.
En hlíðin er brött og veðraskipti eru tíð á fjallinu og því verða margir frá að hverfa á leið sinni upp það. En Kokichi Akuzawa, sem er 102 ára, komst upp á topp fjallsins fyrr í mánuðinum og varð þar með elstur allra sem hafa náð á toppinn.
Japan Today skýrir frá þessu og segir að Heimsmetabók Guiness hafi staðfest að um heimsmet sé að ræða.
En Akuzawa, sem er kúabóndi, er ekkert sérstaklega upprifinn yfir afrekinu. „Ég er sex árum eldri en þegar ég komst síðast á toppinn. Ég hef verið þar og notið útsýnisins margoft, þetta var alls ekki merkilegt,“ sagði hann í samtali við AFP.
Það er ekki nóg með að Akuzawa sé 102 ára, hann glímir einnig við alvarlega hjartveiki. En með miklum æfingum og fjölda gönguferða, tókst honum að undirbúa sig undir fjallgönguna.