Allen, sem verður níræður síðar á árinu, flutti erindi í gegnum fjarfundarbúnað á kvikmyndahátíðinni í Moskvu á sunnudag.
Í rússneskum fréttamiðlum sáust myndir af Allen flytja erindi fyrir fullum bíósal. Lýsti Allen dálæti sínu á rússneskri kvikmyndagerð og ferðalögum sínum til Rússlands og Sovétríkjanna á sínum tíma.
Utanríkisráðuneyti Úkraínu fordæmdi Allen og sagði þátttöku hans á hátíðinni „hneyksli og móðgun“ við fórnarlömb innrásar Rússa í landið á síðustu árum.
Allen reyndi að klóra í bakkann í yfirlýsingu sem hann sendi AP-fréttaveitunni í gær. Í henni sagðist hann fordæma ákvarðanir Vladimír Pútíns í stríðinu við Úkraínu og það hefði sannarlega valdið gríðarlegri þjáningu hjá saklausum borgurum.
„En burt séð frá þeim ákvörðunum sem stjórnmálamenn taka finnst mér það aldrei hjálplegt að slíta á listræn tengsl eða samtal um listir,” sagði hann.