Dustin Walker, 34 ára, og Cherie Walker, 33 ára, voru handtekin eftir að dóttir Cherie og stjúpdóttir Dustins fæddi barn í Muskogee þann 16. ágúst síðastliðinn. DNA-rannsókn hefur leitt í ljós að 99,9% líkur séu á því að Dustin sé faðirinn.
Hefur Dustin verið ákærður fyrir kynferðislega misnotkun á barni yngra en 12 ára og Cherie verið ákærð fyrir að hafa með aðgerðarleysi sínu gert misnotkunina mögulega.
Grunur leikur á að stúlkan hafi verið misnotuð ítrekað af stjúpföður sínum. Í fréttum bandarískra fjölmiðla, NBC News og Fox 23 þar á meðal, kemur fram að Walker-hjónin hafi ekki vitað að stúlkan væri ólétt. Hún hafði ekki farið til læknis í um það bil ár fyrir fæðingu barnsins og þá hafði hún ekki fengið neina mæðravernd. Þá hafði stúlkan ekki sótt skóla í þó nokkuð langan tíma.
Við rannsókn málsins kom í ljós að aðstæður á heimili hjónanna voru óviðunandi, en þau eiga fimm önnur börn, 2, 4, 6, 7 og 9 ára. Í dómsskjölum kemur fram að við heimsókn lögreglu hafi fundist hundaskítur á gólfum og börnin gengið um klæðalaus. Þá var ekkert rennandi vatn í húsinu.
Öll börnin hafa verið vistuð utan heimilisins, að sögn yfirvalda.
„Þetta er eitt alvarlegasta, ef ekki það alvarlegasta, mál sem ég hef nokkru sinni sótt til saka sem varðar kynferðislega misnotkun og vanrækslu barna,“ segir Janet Hutson, aðstoðarsaksóknari í Muskogee-sýslu, í yfirlýsingu.
Hjónin eru í haldi lögreglu og er þinghald áætlað í máli þeirra þann 3. september næstkomandi. „Þetta barn hefur orðið fyrir miklum skaða og gengið í gegnum skelfilega reynslu,“ segir Huston í samtali við News on 6.