Margar mýtur eru til um hvernig sé hægt að takast á við þynnku en á vefsíðunni netdoktor.dk eru veitt þrjú ráð, sem eru sögð skotheld, um hvernig er hægt að koma í veg fyrir og takast á við þynnku.
Að vera vel undirbúin(n)
Til að vera hreinskilinn, þá er rétt að taka fram að það er ekki til nein kraftaverkameðferð við þynnku, að minnsta kosti ekki nein aðferð sem hefur verið sönnuð með vísindalegum hætti.
En það eru til nokkrar aðferðir sem gagnast mörgum vel.
Til dæmis að ef þú drekkur megnið af áfenginu á meðan þú borðar, þá eru minni líkur á þynnku en ef áfengið er drukkið án þess að matur komi við sögu.
Ástæðan er að það tekur líkamann lengri tíma að taka áfengið upp í blóðið þegar maginn er fullur. Ef þú ert orðinn mjög fullur áður en þú ferð að borða, þá gagnast þessi aðferð því miður ekki mjög vel.
Það er síðan góð hugmynd að borða saltan mat daginn eftir fylleríið. Ástæðan er að áfengið hefur losað líkamann við vökva og um leið salt.
Gamla aðferðin
Þessi aðferð kemur örugglega engum á óvart – Drekktu vatn!
Áfengisdrykkja veldur vatnslosun því alkóhól er vatnslosandi. Þú getur unnið gegn þessum áhrifum með því að drekka mikið vatn samhliða áfengisneyslunni.
Þumalfingurregla er að drekka eitt vatnsglas á móti hverjum bjór og jafnvel enn meira vatn ef þú ferð að æla. Það er líka góð hugmynd að drekka eins mikið vatn og þú getur áður en þú ferð að sofa.
Mjög slæm þynnka
Ef þú glímir við sérstaklega slæma þynnku, þá er hægt að koma í veg fyrir hana með því að taka tvær verkjatöflur og drekka mikið vatn áður en þú ferð að sofa. Það dregur úr höfuðverknum og tryggir betri svefn.
Það eru til ýmis lyf sem eiga að koma í veg fyrir þynnku að sögn framleiðenda þeirra. En engar vísindalegar sannanir hafa verið settar fram sem styðja þetta.
En besta ráðið af öllum er auðvitað bara að drekka í hófi ef maður getur á annað borð ekki sleppt því að drekka áfengi.