Dagblaðið Wall Street Journal fer hörðum orðum um tollasamning sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur gert við Evrópusambandið. Þar hafi forsetinn ekki náð þeim árangri sem stefnt var að og í raun gengið á bak orða sinna.
Dagblaðið, sem er í eigu athafnamannsins Rupert Murdoch, segir í ritstjórnargrein að samningurinn muni keyra upp framfærslukostnað Bandaríkjamanna og auk þess hafi forsetinn ekki samið um mikilvægar úrbætur í milliríkjaviðskiptum.
WSJ rekur að eitt helsta umkvörtunarefni forsetans og hans stuðningsmanna gegn ESB séu reglur sambandsins hvað varðar stafræna skatta, sektaheimildir sem hefur verið beitt gegn bandarískum tæknirisum og svo íþyngjandi regluverk sambandsins í sambandi við matvöru sem hefur komið í veg fyrir innflutning á bandarísku kjöti til Evrópu. Eins mun samningurinn ekki skikka Evrópu til að greiða meira fyrir lyf heldur þvert á móti munu nú tollar leggjast á hráefni sem Bandaríkin flytja inn til lyfjaframleiðslu og þar með hækka lyfjakostnað Bandaríkjamanna.
„Að láta Bandaríkjamenn borga meira fyrir lyf með tollum er furðuleg leið til að refsa Evrópu fyrir verðstýringu sem hefur gert sambandinu kleift að vera afætur á bandaríska nýsköpun í lyfjaiðnaði.“
Trump fari nú mikinn í að hreykja sér af því að Evrópusambandið hafi með samningnum skuldbundið sig til að verja 750 milljörðum dala í að kaupa orkuafurðir af Bandaríkjunum, fjárfesta í Bandaríkjunum fyrir um 600 milljarða dali og til að kaupa bandarísk vopn. WSJ bendir á að þetta sé ekkert til að monta sig af enda liggi fyrir að þetta hefði líklega gerst án samningsins enda hafi Evrópa um nokkra hríð stefnt að því að hætta að kaupa orkuafurðir frá Rússlandi. Eins sé Evrópa nú þegar stærsti erlendi fjárfestirinn í Bandaríkjunum. Á árunum 2023 og 2024 hafi Evrópa fjárfest fyrir um 200 milljarða í Bandaríkjunum og því sé þreföldun á þeirri fjárfestingu yfir ótilgreindan tíma ekkert sérstakt afrek. Eins hafi þegar staðið til að auka útgjöld sambandsins til vopnakaupa út af ógninni frá Rússlandi og þar sem leiðtogar Evrópu hafi áttað sig á því að þeir þurfa að vopnavæðast.
„Herra Trump virðist hafa yfirgefið markmið sín til að gera ástkærum tollum sínum hærra undir höfði, sem er ekkert annað en skattahækkun á bandaríska neytendur og fyrirtæki, þar með talið í lyfja- og hráefnainnflutningi.“
Líklega hafi Evrópusambandið áttað sig á því að það væri betra að borga 15 prósenta toll heldur en hærri álögur á tilteknar útflutningsgreinar.
WSJ tekur fram að tollastefna Trump sé nú hyllt fyrir að hafa borið árangur bara því hún hefur ekki valdið heimskreppu. Þar með hafi gagnrýnendur haft rangt fyrir sér. Miðillinn tekur fram að það sé þó engu að síður Trump sem hafi lúffað í einhliða tollastríði sínu og skaðinn sé þegar skeður – traust til Bandaríkjanna hafi beðið hnekki og atvinnulífið þurfi nú að takast á við auknar álögur.
„Hvað sem afsakarar tollanna segja þá getur herra Trump ekki afturkallað lögmál hagfræðinnar.“