Eftir því sem uppljóstrarinn segir þá hafa hryllilegir atburðir átt sér stað í hofinu síðustu tvo áratugina. Þar á meðal eru morð, nauðganir og leynilegar útfarir. Segir hann að ungar stúlkur og konur hafi kerfisbundið verið misnotaðar kynferðislega og myrtar og séu fórnarlömbin talin í hundruðum.
The Independent skýrir frá þessu og segir að uppljóstrarinn hafi nýlega komið fyrir dóm og hafi andlit hans verið hulið með svartri húfu. Hann hafði mannabein meðferðis sem hann sagði hafa verið í fjöldagröf þar sem fórnarlömb kynferðisofbeldis séu grafin.
Uppljóstrarinn segist hafa starfað við þrif í hofinu og hafi verið neyddur til að fjarlægja mörg hundruð lík, mörg þeirra hafi borið merki þess að hafa sætt hrottalegu ofbeldi og kynferðisofbeldi.
Uppljóstrarinn sendi bréf til lögreglustjóra héraðsins þar sem hann sagðist hafa starfað í hofinu í tæp 20 ár áður en hann flúði þaðan 2014 og leitaði skjóls hjá ættingjum. Nafni hans er haldið leyndu til að tryggja öryggi hans.
Hann sagði fyrir dómi að sektarkennd, eftirsjá og stöðugar martraðir hafi valdið því að hann hafi nú gefið sig fram til að ljóstra upp um þessa „hryllilegu glæpi“ sem hann varð vitni að þegar hann starfaði í hofinu.
Uppljóstrarinn krafðist þess að lík hinna meintu fórnarlamba verði grafin upp og rannsökuð svo réttlætið geti náð fram að ganga.
Málið hefur beint kastljósinu að því að mörg hundruð konur og stúlkur hafa fundist látnar eða hafa horfið í Dharmasthala á síðustu árum. Lögreglan hunsaði mörg þessara mála eða rannsakaði þau ekki formlega.
Sérstakt rannsóknarteymi hefur nú verið sett á laggirnar til að rannsaka málið.
Dharmasthala er mikilvægur staður fyrir pílagríma úr röðum hindúa og streyma milljónir þeirra þangað árlega.