Sumir karlmenn hafa kannski tekið eftir því að það viðrar betur fyrir sunnan á sumrin en vanalega. Þetta fyrirbæri kallast sumartyppi og þetta er engin ímyndun. Getnaðarlimurinn getur nefnilega virkað ögn stærri eða meiri um sig í hita, rétt eins og hvernig hann skreppur gjarnan saman í kulda.
Læknar hafa bent á að æðakerfið blæs aðeins út í hita því líkaminn vill freista þess að kæla sig niður. Þetta getur orðið til þess að meira blóð flæðir í bæði út- og getnaðarlimi.
Það eru þó ekki allir karlmenn sem upplifa þennan sumarbónus heldur einkum þeir sem eru viðkvæmir fyrir hitabreytingum. Og þetta er ekki alltaf jákvætt. Læknirinn Donald Grant bendir á að galli sé á gjöf Njarðar. Sumartyppið getur valdið risavanda, einkum ef karlmenn eru ekki nógu duglegir að drekka vatn.
Eins getur hitinn valdið þreytu og haft neikvæð áhrif á svefn sem hefur svo neikvæð áhrif á holdris með því að draga úr testosterónframleiðslu.
Það er ekki bara typpið sem skellir sér í sumarham heldur er líka til fyrirbæri sem kallast sumarpungur. Eistunum er nefnilega meinilla við hita svo pungurinn á það til að hanga lengra niður en hann er vanur, jafnvel svo langt að hann rekst í klósettvatnið þegar sest er niður til að tefla við páfann. The New York Post ræddi við nokkra þolendur sumarpungs sem sögðu þetta fremur neyðarlegt og hvimleitt. Pungurinn lafi langt niður og verði klístraður af svita svo hann límist við fæturna. Þetta er bæði óheppilegt og óþægilegt og gerði mönnum ókleift að njóta sumarsins í ministuttbuxum.
Karlmenn með kólfsæðavíkkun eru líklegastir til að glíma við sumarpunginn, eða um 15%. Þetta ástand er gjarnan skaðlaust en getur þó haft neikvæð áhrif á frjósemi.
Ef sumarpungurinn er til vandræða mæla sérfræðingar með þröngum nærbuxum og að verja eins miklum tíma og mögulegt er í loftkældu umhverfi. Eins er hægt að kæla bæði pung og lim niður með til dæmis kælipokum, og jafnvel með köldum bjór.