Slysið varð þegar Cessna-flugvél brotlenti í úthverfi San Diego og urðu að minnsta kosti tíu íbúðarhús fyrir skemmdum. Sex voru um borð í vélinni þegar hún hrapaði og er talið að allir hafi látist en þar að auki slösuðust átta einstaklingar á jörðu niðri.
Dave Shapiro, eigandi umboðsskrifstofunnar Sound Talent Group, var um borð en hann var með flugmannspróf og var að auki eigandi vélarinnar. Tveir samstarfsmenn hans voru einnig um borð. Shapiro var 41 árs en hljómsveitir á borð við Sum 41, Story of the Year og Pierce the Veil eru samningsbundnar fyrirtæki hans.
Daniel Williams, fyrrverandi trommuleikari metal-sveitarinnar The Devil Wears Prada, var einnig um borð í vélinni. Þetta staðfesti faðir hans í samtali við TMZ.
Tildrög slyssins liggja ekki fyrir og vinna bandarísk flugmálayfirvöld (FAA) og rannsóknarnefnd flugslysa (NTSB) að rannsókn málsins.
Williams hafði birt mynd úr þessari sömu vél á samfélagsmiðlum skömmu áður en slysið varð. Eftir að hann hætti í The Devil Wears Prada árið 2016 starfaði hann sem yfirhugbúnaðarhönnuður hjá GoPro og hafði nýverið þegið starf hjá tæknirisanum Apple.