Um 500 milljóna dollara verkefni í Serbíu er að ræða. Þar ætlar Trump að reisa fyrsta Trump International hótelið í Evrópu. En nú er verkefnið í uppnámi í kjölfar þess að opinber serbneskur starfsmaður hefur játað að hafa falsað skjöl til að hraða verkefninu.
Jared Kushner, tengdasonur Trump, sér um verkefnið fyrir hönd Trump og hefur annast umsóknir um leyfi varðandi byggingu hótelsins. Til stendur að byggja hótelið í Belgrad á lóð þar sem leifar af júgóslavneska varnarmálaráðuneytinu standa enn. Byggingin skemmdist mikið í loftárásum NATÓ 1999.
Trump hefur að sögn haft áhuga á að eignast lóðina síðan 2014 og hefur að sögn engar áhyggjur af áhyggjum heimamanna af því að eyðileggja eigi sögulegan stað með því að byggja bandarískt lúxushótel þar.
Honum tókst loks á síðasta ári að fá byggingarleyfi en nú er málið komið í hnút að sögn The New York Times sem segir að Goran Vasic, fyrrum forstjóri þeirrar stofnunar sem sér um vernd sögulegra staða, hafi verið handtekinn eftir að hafa játað að búið til sérfræðiálit til að réttlæta að lóðin verði svipt þeirri vernd sem hún hefur notið sem sögulegur staður en sú vernd tryggði að ekki mætti hreyfa við lóðinni eða því sem stendur á henni.
Verndin var felld úr gildi tæpum tveimur vikum eftir að Trump sigraði í forsetakosningunum á síðasta ári.