
Árið 2018 var táningurinn Morgan Geyser dæmd til 40 ára vistar á geðsjúkrahúsi eftir að hún og vinkona hennar réðust á bekkjasystur þeirra og stungu hana 19 sinnum með hníf. Árásin var til heiðurs goðsagnapersónunni Slender Man sem nýtur vinsælda meðal aðdáenda hryllings og birtist fyrst á vefsíðunni Creepypasta.
Árásin átti sér stað árið 2014 þegar stúlkurnar voru aðeins 12 ára gamlar. Eftir árásina var fórnarlambið skilið eftir í blóði sínu en henni tókst þó við vondan leik að skríða eftir aðstoð. Læknum tókst svo með naumindum að bjarga lífi hennar.
Sjá einnig: Internetgoðsögnin varð til þess að tvær tólf ára stúlkur frömdu hroðalegan glæp
Geyser var í framhaldinu greind með geðklofa, en læknar segja skilin á milli ímyndunar og veruleika vera óljós í hennar huga. Hún trúði virkilega á Slender Man og vildi gerast handbendi hans. Eftir að dómur féll í málinu var Geyser vistuð á geðsjúkrahúsi en í mars á þessu ári taldi dómari óhætt að senda hana á áfangaheimili eftir að þrír geðlæknar gáfu skýrslu um að hún hefði náð nægum bata. Geyer þyrfti samt að ganga um með ökklaband.
Á laugardaginn skar hún ökklabandið af sér og strauk af áfangaheimilinu. Hún fór í framhaldinu huldu höfði. Lögmaður hennar biðlaði til hennar í gegnum fjölmiðla að gefa sig fram. Lögregla fór að heimili fórnarlambsins til að tryggja öryggi hennar.
Lögreglan hafði hendur í hári Geyser á sunnudaginn, en hún var þá í fylgd með kunningja á fimmtugsaldri sem hefur nú verið ákærður fyrir sinn hlut í flóttanum.
Ákæruvaldið var andsnúið því í mars að Geyser fengi að fara á áfangaheimili og taldi að hún væri enn óstöðug. Meðal annars hefði hún átt í ofbeldisfullum bréfasamskiptum við karlmann og lesið ofbeldisfullar bókmenntir.