Maðurinn, sem hét Roger Thiberville, náði aldrei að heimsækja bæinn á langri ævi sinni en eins og lesendur hafa örugglega áttað sig á, þá var fjölskyldunafn hans það sama og nafn bæjarins.
Hann var kominn af fjölskyldu vínræktenda og erfði húseign í París frá foreldrum sínum. Hann starfaði sjálfur sem veðurfræðingur.
Hann lést 91 árs að aldri í ágúst síðastliðnum. Hann átti enga afkomendur.
Skömmu eftir andlát hans var hringt í bæjarstjórann í Thiberville, þar sem 1.773 búa, og honum var tilkynnt að Thiberville hefði arfleitt bæinn að megninu af 10 milljóna evra auði sínum. The Guardian skýrir frá þessu.
Guy Paris, bæjarstjóri, sagðist vera himinlifandi yfir þessu og nú væri verið að íhuga hvernig eigi að nota peningana. Hér sé um mjög háa upphæð að ræða, hærri en hægt sé að ímynda sér.
Hann sagði að nú þegar hafi verið ákveðið að nota ekki alla upphæðina. Ráðstöfun hennar verði byggð á ráðdeild eins og sé gert í rekstri bæjarfélagsins. Þar sem bæjarfélagið er opinber aðili, þarf það ekki að greiða erfðafjárskatt.
Ætlunin er að greiða upp bankalán upp á 400.000 evrur sem var tekið til að greiða fyrir byggingu nýs grunnskóla.
Paris sagði að einu tengsl Thiverville við bæinn sé nafnið. Hann viti að hann hafi lifað „hófsömu lífi í París“ en þar átti hann fjórar íbúðir. Engar ljósmyndir eru til af honum, svo vitað sé.
Thiberville setti engin skilyrði fyrir arfinum en hann óskaði eftir því að ösku hans yrði komið fyrir í minningarreit í kirkjugarði bæjarins.