Konrad Steffen var einn af fremstu vísindamönnum heims á sviði loftslagsmála. Hann helgaði líf sitt rannsóknum á Grænlandsjökli en árið 2020 hvarf hann á jöklinum og hefur ekki fundist síðan. Business Insider tók saman ítarlega umfjöllun um ævi og síðustu daga svissneska vísindamannsins sem vakti fyrstur athygli á því hvernig bráðnun Grænlandsjökuls ýtir undir hækkandi sjávarmál á heimsvísu.
Steffen, sem var 68 ára þegar hann hvarf, hafði starfað á jöklinum í áratugi og stofnaði þar rannsóknarstöðina Swiss Camp. Með útsjónarsömum aðferðum tókst honum að sýna fram á að ísinn væri að hopa og bráðna hraðar en áður hafði verið talið. Hann varð þannig einn áhrifamesti boðberi loftslagsvísinda og átti í nánum samskiptum við stjórnmálamenn á borð við Nancy Pelosi og Al Gore.
Dagana fyrir hvarfið hafði orðið ljóst að jökullinn var orðinn stórhættulegur. Fjölmargar djúpar jökulsprungur höfðu myndast í kringum áðurnefndar búðir, sem staðsettar voru um 80 kílómetrum frá bænum Ilulissat á vesturströnd Grænlands. Þann 8. ágúst 2020 fór Steffen út til að sækja gögn úr veðurstöð en síðan hefur ekkert til hans spurst.
Umfangsmikil leit með þyrlum og björgunarsveitum bar engan árangur. Þrátt fyrir að engin viti með vissu hvað hafi gerst þá er helsta kenningin sú að Steffen hafi fallið í eina af sprungunum sem voru á þessum slóðum. Vísindamaðurinn sem elskaði Grænlandsjökul hvarf því í iður hans.
Fimm árum síðar er hans enn sárt saknað af fjölskyldu, nemendum og samstarfsmönnum. Sonur hans, Simon, sagði í viðtali við Business Insider að það skipti kannski ekki máli hvað nákvæmlega gerðist: „Hann hvarf vegna þess að jökullinn sjálfur hefur breyst algjörlega.“
Al Gore sagði við miðilinn að Steffen hefði verið „sendiherra aðgerða“ í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. „Við verðum að umbreyta þeirri örvæntingu sem loftslagskreppan kveikir innra með okkur í raunverulega aðgerðir,“ sagði Gore.