Málið hefur vakið mikla athygli enda ansi sérstakt að fólk láti skera húðflúr af látinni manneskju og ramma inn. Angelica, sem er 35 ára, og TJ höfðu verið vinir og par lengi áður en þau gengu í hjónaband 2021. Preston fæddist 2015.
TJ varð bráðkvaddur í mars og Angelica var aldrei í vafa um hvernig hún vildi minnast hans og þá sérstaklega vegna þess að þau höfðu rætt þetta nokkrum sinnum.
Hún skýrði frá þessu á TikTok og sagði að hún hafi viðrað þessa hugmynd við hann nokkrum sinnum og „honum fannst þetta rosalega kúl“ sagði hún. TJ var með rúmlega 70 húðflúr en þau ákváðu að ef af þessu yrði, myndi Angelica láta skera húðflúr, sem er merki Pittsburgh Steelers, af honum og ramma inn.
Líksnyrtir fjarlægði húðflúrið og kom því fyrir á undirlagi frá fyrirtækinu Save My Ink Forever sem hóf síðan 90 daga ferli til að tryggja að húðflúrið varðveitist um alla framtíð.
Frásögn Angelica af þessu á TikTok hefur vakið mikla athygli og þegar þetta er skrifað hefur færslan fengið rúmlega 30 milljónir áhorf. Fólk hefur ýmsar skoðanir á þessu, margir hafa hrósað þeim fyrir hugmyndaauðgi og styrk en aðrir hafa líkt þessu við hryllingsmynd og hafa jafnvel borið þetta saman við raðmorðingjann Jeffrey Dahmer að sögn PEOPLE.