Rudat var að heimsækja fósturfjölskyldu sína þegar ráðist var á hann. Ákvað hann að skipta sér af þegar hann sá tvo menn áreita tvær konur í umræddri lest aðfaranótt sunnudagsins.
Annar mannanna dró upp hníf og stakk Rudat í andlitið með þeim afleiðingum að hann fékk gapandi sár á nefið. Þeir flúðu svo af vettvangi skömmu síðar.
Annar þeirra, 21 árs Sýrlendingur, var handtekinn skömmu síðar en sleppt vegna skorts á sönnunargögnum. Lögregla leitar enn að hinum manninum, þeim sem grunaður er um að hafa stungið Rudat, en hann er einnig sagður vera sýrlenskur ríkisborgari.
Rudat tjáði sig um málið á samfélagsmiðlum þar sem hann gagnrýndi vinnubrögð lögreglu og sagði að Þjóðverjar, líkt og fleiri Evrópuþjóðir, glímdu við ákveðinn vanda vegna innflytjendamála. Kvaðst hann vilja miðla sinni reynslu til annarra ferðamanna.
Sagði hann að árásarmaðurinn væri þekktur hjá lögreglu sem hefði áður haft afskipti af honum fyrir að áreita konur.
Hann segist hafa ákveðið að skipta sér þar sem verið var að áreita varnarlausar konur.
„Frá mínu sjónarhorni snerist þetta ekki um húðlit, kynþátt eða neitt slíkt. Það var sú staðreynd að verið var að áreita konurnar og ráðast á þær,” segir hann og bætir við að hann vilji ekki hljóma pólitískur.
„Allir, sama úr hvaða flokki þeir koma, ættu að líta á þetta og sjá það fyrir það sem það var: ofbeldisverk gegn einhverjum sem gat ekki varið sig, og inngrip frá einhverjum sem var í aðstöðu til þess,“ sagði hann.
Í frétt breska blaðsins Independent er vísað í niðurstöður rannsóknar frá Ifo Institute í Þýskalandi sem birtar voru fyrr á þessu ári. Leiddi rannsóknin í ljós að innflytjendur og móttaka flóttamanna leiddi ekki til aukinnar glæpatíðni á þeim svæðum sem þeir settust að á.