Drengurinn var í pössun hjá afa sínum og ömmu þegar þetta gerðist. Um miðjan daginn héldu þau að hann væri sofandi og brugðu sér frá til að versla í matinn. Þau læstu útidyrunum til að tryggja að drengurinn færi ekki neitt að sögn Jimu News.
En drengurinn vaknaði á meðan þau voru í burtu og fór inn á baðherbergi og klifraði upp á klósettið og út um ólæstan glugga og hrapaði til jarðar.
Íbúi fjölbýlishússins kom að drengnum liggjandi á jörðinni og tók mynd af honum og birti í samfélagsmiðlahópi fjölbýlishússins. Þá áttaði faðir drengsins sig á að sonur hans hafði dottið út um glugga.
Upptökur úr eftirlitsmyndavél sýna þegar drengurinn datt út um baðherbergisgluggann og stefndi til jarðar. Það varð honum til happs á niðurleiðinni að hann lenti á trjágreinum og síðan í runna á jörðu niðri.
Hann var strax fluttur á sjúkrahús. Hann handleggsbrotnaði, tognaði í baki og innri líffæri sködduðust en höfuð hans slapp alveg án áverka og hann missti aldrei meðvitund. Skömmu eftir að komið var með hann á sjúkrahúsið bað hann lækna um að „biðja pabba að kaupa Bumblebee“ leikfang fyrir sig. Kínverskir ríkisfjölmiðlar segja að drengurinn sé á batavegi.