Málið snýst um Freddie Scappaticci frá Norður-Írlandi. Hann var opinberlega leiðtogi leyniþjónustu Írska lýðveldishersins, IRA, á níunda og tíunda áratugnum. Óopinberlega er hann talinn hafa verið mikilvægasti njósnari óvinarins, Bretlands, og hafi gengið undir dulnefninu „Stakeknife“.
Mál hans komst í hámæli 2003 og neyddist hann þá til að flýja frá heimili sínu í Belfast til óþekkts staðar á Englandi þar sem hann bjó þar til hann lést fyrir tveimur árum.
Scappaticci stóð fyrir pyntingum og drápum á minnst 14 manns á meðan hann var liðsmaður IRA.
Ættingjar hinna látnu hafa í 20 ár reynt að fá svar við spurningunni um hvort breska leyniþjónustan MI5 hafi vitað af voðaverkum hans.
Upplýsingar varðandi málið hafa nánast verið óaðgengilegar og aldrei hefur fengist skýrt svar við hvort Scappaticci hafi verið njósnari Breta.
Nýlega kvað breski hæstiréttur upp dóm í máli er varðar Scappaticci. Ákvað dómstóllinn að erfðaskrá hans verði haldið leyndri næstu 70 árin. Er það gert vegna öryggis þeirra sem hann nefndi í erfðaskránni.
Ættingjar hinna látnu vildu fá upplýsingar um hverja Scappaticci hefði nefnt í erfðaskránni en það vildu þeir gera til að fá innsýn í tengsl hans við bresk yfirvöld. The Guardian skýrir frá þessu.
„The Nutting Squad“
Scappaticci ólst upp í Belfast og var ungur að árum þegar átökin á milli mótmælenda og kaþólikka brutust út 1968.
Átökin mátti rekja til deilna um hvort Norður-Írland ætti að vera sjálfstætt eða hluti af Bretlandi.
IRA barðist fyrir sjálfstæði frá Bretlandi.
Scappaticci barðist með IRA og talið er að breska leyniþjónustan hafi fengið hann til liðs við sig í lok áttunda áratugarins á meðan hann afplánaði stuttan fangelsisdóm í bresku fangelsi.
Hann vann sig upp metorðastigann innan IRA og varð að lokum leiðtogi leyniþjónustu hryðjuverkasamtakanna en hún var almennt kölluð „The Nutting Squad“. „Nutting“ er slanguryrði fyrir að vera geðveikur og ekki viðræðuhæfur og í þessu samhengi, sérstaklega miskunarlaus. „The Nutting Squad“ hafði nefnilega ekki mikinn áhuga á sanngjarnri málsmeðferð eða mannréttindum.
Verkefni leyniþjónustunnar var að finna þá IRA-meðlimi sem voru grunaðir um að vera njósnarar fyrir Breta. Fjöldi fólks var pyntaður og drepinn af „The Nutting Squad“ að sögn The Guardian.
Samið var um frið á Norður-Írlandi 1998 en þá þegar höfðu margir írskir fjölmiðlar heimildir fyrir að Scappaticci væri á mála Breta.
Gulleggið
Það var þó ekki fyrr en 2003 að fjöldi breskra, skoskra og írskra fjölmiðla ákvað að birta söguna um meint tvöfalt líf Scappaticci.
Honum var meðal annars lýst sem „krúnudjásninu“ og „gullegginu“ fyrir bresku leyniþjónustuna. Var þetta haft eftir heimildarmanni innan breska varnarmálaráðuneytisins.
Fjölmiðlarnir birtu fréttina eftir að þeir komust að því að breska varnarmálaráðuneytið hafði flutt Scappaticci frá Belfast til óþekkts staðar á Englandi.
Málið skók Bretland og var kallað „Stakeknife-hneykslið“ að sögn The Guardian.
Skandall var þetta því Scappaticci, ef sagan var sönn, hafði verið á launum sem njósnari Breta en á sama tíma hafði hann pyntað og drepið landa sína.