Þegar karlar drepa maka sína eða fyrrverandi maka hafa þeir oft verið mjög stjórnsamir í þeirra garð. Þá eru morðin oft miklu skipulagðari en talið hefur verið fram að þessu. Þetta eru niðurstöður breskrar rannsóknar þar sem rannsakað var hvernig atburðarásin var í 372 morðum á konum á Englandi frá 2012 til 2015.
Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í tímaritinu Violence Against Women. Aðalhöfundur rannsóknarinnar er Jane Monckton Smith, afbrotafræðingur við University of Gloucestershire. Hún hefur fundið mjög skýrt aðgerðamynstur í átta skrefum sem á sér oft stað í aðdraganda þess að karlar myrða konur sem þeir hafa átt í nánu sambandi við. Það er til dæmis mjög algengt að samböndin hafi mjög fljótt orðið alvarleg og fólk eignast börn saman eða gengið í hjónaband. Fljótlega eftir það byrjuðu karlarnir að stjórna konunum og ráðskast með þær.
Jane vonast til að niðurstöður rannsóknarinnar geti gagnast lögreglumönnum, heilbrigðisstarfsfólki og félagsmálayfirvöldum í samskiptum þeirra við konur. Hún segir hægt að nota átta þrepa módelið ásamt öðrum viðeigandi formum áhættugreiningar. Módelið geti veitt meiri innsýn í mál þegar fagfólk og fórnarlömb eru í þeirri stöðu að taka verður ákvörðun.
Áður en fórnarlambið og morðinginn taka saman hefur maðurinn áður verið stjórnsamur eða ofbeldisfullur í garð fyrrverandi maka eða ofsótt konur.
Eftir að fólkið kynnist ganga hlutirnir hratt fyrir sig. Maðurinn veitir konunni mikla athygli og fær hana til að skuldbinda sig og því verður sambandið mjög hratt alvarlegt. Jane tekur sem dæmi að maðurinn flytji hugsanleg inn til konunnar sama dag og þau kynnast eða þá að þau eignast barn mjög fljótt. Hún nefnir einnig hjónaband til sögunnar og segir að það gerist oft fljótlega eftir að fólkið kynnist. Fjölskylda fórnarlambsins tekur oft eftir því að hlutirnir ganga óeðlilega hratt fyrir sig.
Þörf mannsins fyrir að stjórna og ráða setur mikið mark á sambandið. Í öllum þeim 372 morðmálum sem Jane rannsakaði byrjuðu mennirnir að vera mjög stjórnsamir í sambandinu. Sumir beittu líkamlegu ofbeldi en aðrir andlegu. Í sumum tilfellum fylgdust mennirnir með konum sínum öllum stundum og eltu þær á röndum því þeir töldu þær vera að halda framhjá.
Eitthvað kemur síðan þeirri hugmynd inn hjá körlunum að valdi hans yfir konunni sé ógnað. Það getur til dæmis verið ef yfirvöld blanda sér í mál þeirra. Einnig ef konan hótar að yfirgefa karlinn. Stundum finnst körlunum að valdi þeirra sé ógnað án þess að hafa nokkra frekari ástæðu til þess.
Óskir mannsins um að stjórna konunni verða enn meiri og ákafari. Þetta virðist tengjast tilraunum til að ná aftur stjórn á konunni eða tryggja stöðu karlsins. Til að gera þetta geta karlarnir nýtt ýmsar aðferðir. Til að grátbiðja um fyrirgefningu, hóta að beita ofbeldi, beita ofbeldi, elta konuna á röndum eða hóta að fremja sjálfsvíg. Þetta stig getur staðið yfir í skamman eða langan tíma.
Hugmyndin um að myrða konuna kviknar. Oft er það í tengslum við að manninum finnst sem hann hafi tapað valdi yfir konunni eða misst stöðu sína. Oft finnst karlinum sem hann sé hið raunverulega fórnarlamb og að konan og/eða kerfið fari ósanngjörnum höndum um hann.
Maðurinn skipuleggur morðið. Hann kynnir sér hugsanlega ýmsar aðferðir. Hann útvegar sér vopn. Ef hann hefur einnig í hyggju að fremja sjálfsvíg eyðir hann hugsanlega kröftum í að ganga frá lagalegum þáttum eins og erfðaskrá. Hann íhugar jafnvel hvernig hann getur losað sig við líkið. Hann fylgist grannt með fórnarlambinu og skipuleggur hugsanlega hvernig hann geti komist í aðstæður þar sem hann sé einn með konunni.
Hann myrðir konuna. Morðin geta verið framin á margvíslegan hátt og á mismunandi stöðum. Það getur einnig gerst að vitni eða börn séu einnig myrt. Hugsanlega reynir hann að leyna morðinu eða þá að hann játar það strax. Einnig getur verið að hann svipti sig lífi að ódæðinu loknu.