Fjórir bændur hafa sett upp hlið við Seceda fjallið sem er mjög vinsæll áfangastaður ferðamanna vegna mikillar náttúrufegurðar. The Telegraph skýrir frá þessu.
Dæmi eru um að allt að 8.000 manns hafi gengið þessa leið á einum degi í sumar.
Myndbönd, sem hafa verið birt á samfélagsmiðlum, sýna langar raðir ferðamanna á Seceda stígnum. Talið er að margir ferðamenn hafi ákveðið að fara frá ströndum upp í fjöll til að komast í svalara loft.
Það er löng hefð fyrir rétti fólks til „að ganga“ um Dólómítana en bændur segja að þessi mikli fjöldi ferðamanna valdi skemmdum á landi þeirra og að þá skorti fé til að standa straum af kostnaði við lagfæringar.
Við hliðið eru ferðamenn nú rukkaðir um 5 evrur.
Hliðið var í fyrstu tekið niður eftir sjö daga en var sett upp á nýjan leik í síðustu viku eftir að ferðamönnum fjölgaði mjög á stígnum.
„Þetta er ákall um hjálp,“ sagði Georg Rabanser, einn landeigendanna og bætti við að þeir vonist eftir að heyra frá yfirvöldum en það hafi þeir ekki enn gert.
Hann benti á að ferðamenn séu fluttir upp að stígnum í kláfum og að eigendur þeirra moki inn peningum á því en landeigendurnir þurfi að bera kostnaðinn af skemmdum á landinu vegna ágangsins.