Í nýrri skýrslu samtakanna kemur fram að fjórir ríkustu Afríkubúarnir eigi 57,4 milljarða dollara. Þetta er jafn mikið og auður 750 milljóna Afríkubúa en það er helmingur íbúa álfunnar.
Ef auður þessara fjögurra milljarðamæringa er lagður saman, dugir hann aðeins til að tryggja þeim 29. sætið á lista Forbes yfir ríkasta fólk heims. En auður þeirra segir samt sem áður sögu um þróun, sem er mikið áhyggjuefni að mati Oxfam. Samtökin berjast gegn fátækt og ójöfnuði.
„Það skortir ekkert á auð í Afríku. Hann er sogaður á brott af spilltu kerfi sem leyfir fámennri elítu að safna gríðarlegum auði,“ segir Fati N‘Zi-Hassane, yfirmaður Oxfam í Afríku, í fréttatilkynningu.
Ríkasti maður álfunnar er Nígeríumaðurinn Aliko Dangote, sem er oft kallaður „sementskóngurinn“. Hann hefur auðgast á sementi og sykri. Auður hans er meiri en verg þjóðarframleiðsla 30 Afríkuríkja.
Þróunin hefur verið hröð. Um aldamótin var enginn afrískur milljarðamæringur til en í dag eru þeir 23. Á síðustu fimm árum hefur auður þeirra aukist um rúmlega 50%.
Á sama tíma og auður þeirra hefur vaxið hefur fátæktin ekki látið undan síga í álfunni. 1990 var einn af hverjum tíu af allra fátækasta fólki heimsins frá Afríku. Í dag eru sjö af hverju tíu í þessum hópi frá Afríku.
Oxfam segir að skattkerfi margra Afríkuríkja hafi algjörlega brugðist og það hafi komið sér vel fyrir hina ofurríku en illa fyrir þá fátæku.
Fati N‘Zi-Hassane segir að þetta séu stór pólitísk mistök sem hefði verið hægt að forðast. Hún segir einnig að þessi mikli ójöfnuður, sem fer sífellt vaxandi, hamli lýðræðisþróun í Afríku.