Veiran berst með moskítóflugum. Í Guangdong, héraði nærri Hong Kong, greindust tæplega 3.000 tilfelli í síðustu viku. 90 hafa látist af völdum veirunnar á þessu ári og 240.000 tilfelli hafa greinst í að minnsta kosti 16 löndum að sögn evrópsku smitsjúkdómastofnunarinnar.
Eins og fyrr sagði, þá berst veiran með moskítóflugum. Faraldrar hafa komið upp í Afríku, Ameríku, Asíu, Evrópu og eyjum í Indlandshafi og Kyrrahafi. Bandaríska smitsjúkdómastofnunin segir að hætta sé á að veiran berist til nýrra svæða með smituðum ferðamönnum.
Veiran getur orsakað hita og liðaverki en einnig höfuðverk, vöðvaverki, bólgur og útbrot. Í alvarlegustu tilfellum getur hún orðið fólki að bana eða valdið langvarandi fötlun.
Engin lyf eru til gegn veirunni og er fólki ráðlagt að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða til að forðast bit moskítóflugna.