Fimmtugur maður í Idaho í Bandaríkjunum hefur játað sig sekan um morð á eiginkonu sinni, tíu mánaða syni þeirra og ófæddu barni sem eiginkonan gekk með er voðaverkið var framið.
Maðurinn heitir Jeremy Albert Best. Hann gekkst undir dómsátt var dæmdur fyrir dómstóli í Idao í þrefalt lífstíðarfangelsi. Mirror greinir frá.
Saksóknari í málinu, Baily A. Smith, segir hjónaband Jeremy Best og eiginkonu hans, Kali Best, hafa verið stormasamt og litað af fjárhagserfiðleikum og fíkniefnanotkun eiginmannsins. „Þetta er ekki bara morðmál, þetta er mál sem varðar útrýmingu fjölskyldu af hendi sakbornings sem tók og tekur hættulegar og eigingjarnar ákvarðanir,“ sagði Smith fyrir dómi.
„Glæpir sakborningsins eru svívirðilegir, einhver þau siðspilltustu verk sem ríkið hefur nokkurn sinni orðið vitni að,“ sagði hún ennfremur.
Jeremy Best lýsti fjárhagserfiðleikum sínum meðal annars í textaskilaboðum til eiginkonu sinnar, þar sem hann greindi frá ýmsum tilraunum til að halda sér á floti, m.a. að slá lán, selja allar eigur sínar og „fara í burtu bara með bakpoka.“
Þann 30. nóvember árið 2023 fékk lögreglan í Bonneville-sýslu tilkynningu um að maður gengi nakinn um verslun í Swan Valley. Borin voru kennsl á Jeremy Best, hann leiddur út úr versluninni og fluttur á nærliggjandi sjúkrahús þar sem hann gekkst undir læknisskoðun. Hann var síðan látinn laus.
Um 12 klukkustundum síðar ruddist lögregla inn á heimili Best-fjölskyldunnar og fann þar Kali Best látna, en hún hafið verið skotin fjórum skotum í bakið. Sonur hjónanna, Zeke, var horfinn.
Lögregla lýsti nú eftir bæði Zeke og Jeremy Best og í tilkynningunni var Jeremy sagður vera vopnaður og hættulegur.
Lögregla fann Jeremy Best sofandi í svefnpoka við vegarkant þann 2. desember. Jeppinn hans fannst skammt frá, nálægt árbakka, og í ökutækinu fannst líkið af litla drengnum, Zeke. Hann hafði verið skorinn á háls. Jeremy Best hafði þar með myrt þrjár manneskjur sem hefðu átt að teljast hans hjartfólgnasta fólk: eiginkonu sína, ófætt stúlkubarn þeirra og kornungan son sinn.
Saksóknarinn sagði að viðurstyggilegir glæpir Jeremy Best verðskulduðu lífstíðarfangelsi, en eins og fyrr segir var niðurstaðan þrefalt lífstíðarfangelsi.