Catherine segir að þar muni auðugir og valdamiklir einstaklingar geta leitað skjóls ef allt fer til fjandans ofanjarðar. Án þess að hún hafi nefnt það sérstaklega er hægt að ímynda sér að Catherine hafi til dæmis verið að vísa til þess ef allsherjar kjarnorkustyrjöld brýst út.
Hún var í viðtali í hlaðvarpsþætti bandaríska íhaldsmannsins og sjónvarpsmannsins Tucker Carlson þar sem hún hélt þessu fram.
Catherine, sem er 74 ára, hefur komið víða við á ferli sínum og var til að mynda umsvifamikil í fjárfestingum á sínum tíma. Á undanförnum árum hefur tjáð sig mikið um opinber útgjöld og haldið því fram að umfangsmikil svik hafi átt sér stað af hálfu bandarískra stjórnvalda.
Í hlaðvarpsþættinum sagði Catherine að um væri að ræða einskonar net neðanjarðarbyrgja og þau væru samtals 170 talsins. „Þetta er undirbúningur fyrir stórslys,“ sagði hún en tekið er fram í umfjöllun New York Post, sem fjallar um málið, að Catherine hafi ekki fært neinar sönnur fyrir máli sínu.
Vísaði hún til skýrslu frá árinu 2017 eftir Mark Skidmore, hagfræðing við Michigan State University, sem átti að hafa sýnt fram á umfangsmikil óheimil útgjöld hjá varnarmálaráðuneytinu og húsnæðis- og borgarþróunarráðuneytinu á tímabilinu 1998 til 2015.
Kveðst hún hafa rannsakað málið sjálf og komist að því að um 170 byrgi væri að ræða sem væru tengd saman með flóknu samgöngukerfi. Tók hún fram að þessi byrgi væru víða í Bandaríkjunum og einhver undir sjó undan ströndum landsins. Þá væru fleiri sambærileg byrgi til í öðrum löndum, þetta ætti einungis við um Bandaríkin.
Flestir taka fullyrðingum Catherine væntanlega með dágóðum fyrirvara en í umfjöllun New York Post er þó rifjað upp að neðanjarðarbyrgi séu ekki óþekkt fyrirbæri í Bandaríkjunum.
Á tímum kalda stríðsins var til að mynda byggð neðanjarðarherstöð í Colorado og var markmið hennar að þola kjarnorkuárás. Hafði hún til dæmis eigið vatns- og rafmagnskerfi sem og sérútbúna loftræstingu sem veitti vernd gegn til dæmis efnavopnum. Þá var neyðarbirgi undir Greenbrier-hótelinu í Vestur-Virginíu sem var ætlað að hýsa allt Bandaríkjaþing í tilfelli neyðarástands.