Verð á kaffi er í methæðum á alþjóðamörkuðum og getur farið enn hærra á næstunni að mati sérfræðinga.
Ástæðan er að eftirspurn eftir kaffi fer vaxandi og samtímis ógnar hækkandi hiti framleiðslunni. Þess utan fjölgar sífellt í hópi þeirra sem drekka kaffi.
TV2 hefur eftir Jørgen E. Olesen, prófessor í loftslagsbreytingum og landbúnaði við Árósaháskóla, að kaffi verði enn dýrara í framtíðinni.
Hann sagði að kaffiplantan dafni best í skugga annarra plantna en þannig vaxi hún ekki á kaffiekrunum í Brasilíu, Kólumbíu og öðrum framleiðslulöndum. Af þeim sökum sé plantan viðkvæm fyrir hækkandi hitastigi.
Samkvæmt tölum frá greiningarfyrirtækinu Trading Economics þá hefur kaffiverð hækkað um rúmlega 69% síðasta árið.
Verðið í september var það hæsta í 13 ár en þá seldist eitt pund af kaffi á 2,73 dollara.