Nú hafa Talibanar bannað útsendingu á myndum af lifandi verum, bæði fólki og dýrum. AFP segir að bannið hafi nú þegar tekið gildi í sumum héruðum landsins og eigi að ná til alls landsins.
Bannið er hluti af hinni ströngu íslömsku löggjöf sem Talibanar hafa innleitt í landinu.
AFP segir að bannið þýði í raun að ekki megi birta myndir eða upptökur af verum með sál, það er fólki og dýrum.
Í íslamskri list er almenn venja að gera ekki myndir af fólki og dýrum. Ástæðan er meðal annars ótti við að það geti orðið til þess að fólk fari að tilbiðja fólkið eða dýrin á myndunum að sögn religion.dk.
En þrátt fyrir þetta myndabann þá er ekki óalgengt að sjá myndir í múslimaríkjum.
Fréttamaður AFP í Takhar í Afganistan segir að einkarekna sjónvarpsstöðin Mah-e-Naw hafi á þriðjudaginn aðeins birt mynd af lógi stöðvarinnar og sent út hljóð.
Embættismenn, sem sjá um að innleiða íslamska löggjöf, segja að öllum fréttamiðlum í Takhar hafi verið sagt að ekki megi taka myndir af lifandi verum og ekki birta slíkar myndir.
Samskonar bann var í gildi í landinu frá 1996 til 2001 þegar Talibanar voru einnig við völd.