Tyrek var nýbúinn að ganga upp að altarinu með sinni heittelskuðu, Kiara Holloway, síðastliðinn laugardag þegar hann þurfti að skjótast frá til að sækja eitthvað sem hafði gleymst fyrir veisluhöldin.
Vitni tóku eftir því þegar hann kom til baka að annar bíll veitti honum eftirför og út úr bílnum steig karlmaður sem hraunaði yfir Tyrek fyrir að hafa svínað á hann skömmu áður.
„Ef ég gerði það þá biðst ég afsökunar,“ mun Tyrek hafa sagt við manninn sem lét ekki þar við sitja. Segja vitni að hann hafi dregið upp skotvopn og skotið Tyrek fimmtán sinnum. Hann var úrskurðaður látinn á staðnum.
Brittany Burton, systir Tyreks, segir við WGHP að um algjörlega ókunnugan mann hafi verið að ræða. Hann lagði á flótta eftir að hafa skotið Tyrek og er hans nú leitað af lögreglu.
Tyrek og Kiara höfðu verið saman í sextán ár og áttu þau fjórar dætur saman.