Það var þann 9. ágúst að Mikhail hélt af stað ásamt bróður sínum, Sergey Pichugin, 49 ára, og 15 ára gömlum frænda sínum, Ilya. Ætluðu þremenningarnir að fara í hvalaskoðun en ekki vildi betur til en svo að bátur þeirra varð vélarvana og rak hann sífellt lengra á haf út.
Það voru sjómenn sem komu auga á björgunarbát sem Mikhail hafði komið sér í og hafa fjölmiðlar í Rússlandi birt stutt myndskeið sem sýnir frá björguninni. Um borð í bátnum voru Sergey og Ilya en þeir voru báðir látnir. Óvíst er hvenær þeir létust.
Sérfræðingar eru á einu máli um að það gangi kraftaverki næst að Mikhail hafi fundist á lífi. Á Okotskhafi er allra veðra von og svalt á þessum árstíma.
Þremenningarnir eru sagðir hafa verið á leið frá Shantar-eyjum til bæjarins Okha sem er á Sakhalin-eyju þegar hörmungarnar dundu yfir. Báturinn þeirra, Baykat 470M, varð vélarvana og er talið að hann hafi rekið rúma þúsund kílómetra á þessum tveimur mánuðum.
Ferðin átti aðeins að taka nokkra daga og voru þremenningarnir því með mat, hlý föt og um 20 lítra af fersku vatni með sér. Leitarhópar leituðu að þremenningunum þegar þeir skiluðu sér ekki í ágústmánuði en leit var blásin af þar sem afar ólíklegt var talið að þeir fyndust á lífi.
Voru það sjómenn um borð í bátnum Angel sem komu auga á björgunarbátinn um tuttugu kílómetrum fyrir utan þorpið Ust–Khairyuzovo sem er á Kamsjatka-skaga. Mikhail var eðli málsins samkvæmt mjög máttfarinn og var honum komið umsvifalaust undir læknishendur. Í fréttum rússneskra fjölmiðla kemur fram að Mikhail hafi lést um 50 kíló.
Lögregla mun vera með málið til rannsóknar og beinist hún meðal annars að því að báturinn sem þremenningarnir fóru á hafi ekki haft tilskilin leyfi til að fara jafn langt á haf út og raun bar vitni.