Það er viðbúið að þynnka herji á fólk daginn eftir mikla áfengisneyslu en að sögn HuffPost þá segja sérfræðingar að það sé fullt tilefni til að hafa áhyggjur ef þessi einkenni gera vart við sig eftir að þú hefur aðeins drukkið einn eða tvo drykki.
Segja þeir að þá geti þetta verið merki um áfengisóþol. „Í raun, þá er áfengisóþol annar hlutur en ofnæmi fyrir áfengi,“ sagði Jeffrey Factor, ofnæmislæknir, í samtali við HuffPost og sagði að hann fái oft svona tilfelli inn á borð til sín.
„Áfengisóþol er mun algengara en ofnæmi fyrir áfengi,“ sagði hann.
Einkenni áfengisóþols eru hitaköst, roði, ofsakláði, versnandi astma, stíflað nef, ógleði, uppköst og lágur blóðþrýstingur.
Áfengisóþol á venjulega rætur að rekja til þess að líkaminn getur ekki brotið eiturefnin í alkóhóli niður. Þetta er oftast arfgengt.