Lögreglan á Long Island hefur lokið ítarlegri húsleit á heimili meinta raðmorðingjans Rex Heuermann og eiginkonu hans, Ásu Guðbjargar Ellerup. Þar bjuggu hjónin með dóttur sinni, Victoriu og syni Ásu úr fyrra sambandi, Christopher, þegar Rex var handtekinn síðasta sumar. Um leið og Rex var handtekin var Ásu og börnum vísað út af heimili þeirra á Long Island svo lögregla gæti framkvæmt þar umfangsmikla húsleit þar sem hverjum steini var snúið við og bakgarðurinn krafinn í sundur.
Það var svo í byrjun síðustu viku sem lögreglan mætti aftur að heimilinu með nýja húsleit. Ekki er ljóst hvað lögreglan telur leynast í húsinu eða hvort eitthvað hafi farið framhjá þeim á síðasta ári. Leitin stóð að þessu sinni yfir í rúma viku en nú hefur lögreglan lokið störfum og Ásu Guðbjörgu og börnum því heimilt að snúa aftur heim.
Að sögn erlendra miðla beindist leit lögreglu að þessu sinni að kjallaranum á heimilinu. Lögmaður Ásu, Robert Macedonio, segir að í fyrra hafi lögregla snúið öllu á hvolf og skilið heimilið eftir í rúst. Að þessu sinni var það bara kjallaranum sem var rústað en litlu hreyft við á öðrum stöðum.
„Ég hef ekki hugmynd um hvaða rökstuddu grunsemdir þeir höfðu fyrir því að leita þarna, en ég reikna með því að það hafi rúmast innan úrskurðar um húsleit,“ sagði Macedonio við Independent. Lögmaðurinn segist hafa sínar eigin hugmyndir um hvað vakti fyrir lögreglu, en honum sé að svo búnu ekki heimilt að tjá sig um það.
Heimildarmenn innan lögreglunnar sögðu við Fox News að enn megi á heimilinu finna óhugnanlega bók sem kallast Death Scenes: A Homicide Detective’s Scrapbook. Bókin sé geymd á eldhúsborðinu. Þar má finna myndir af vettvangi morða, og myndir af þeim myrtu.
Lögmaður Victoriu og Christopher segir þau ekki kannast sérstaklega við þessa bók. „Það er ekki ólöglegt að eiga bækur“.