Það er engu að síður það sem kom fyrir hinn 15 ára gamla Brigham Hawkins síðastliðinn fimmtudag. Hawkins var í slökun fyrir framan sjónvarpið í kofa fjölskyldu sinnar í Alpine í Arizona þegar svartbjörninn réðst inn, en fjölskyldan farið til Alpine í nokkra daga til að veiða.
Brigham átti sér einskis ills von en hann þjáist af taugasjúkdómi sem gerir það að verkum að hann getur illa hreyft sig. Voru það aðstandendur hans í næsta kofa sem heyrðu öskrin í honum þegar björninn gekk inn og sló Hawkins nokkrum sinnum.
Það var eldri bróðir Hawkins sem kom fyrstur á vettvang og taldi hann að stór hundur hefði gengið inn í kofann. Hann áttaði sig á alvarleika málsins þegar björninn gerði sig líklegan til að ráðast á hann. Tókst honum að hlaupa undan og loka sig inn í nærliggjandi kofa á meðan björninn elti.
Lögregla kom á vettvang og var björninn, sem líklega var um þriggja ára, drepinn af laganna vörðum skammt frá dvalarstað fjölskyldunnar.
Shawn Wagner, lögreglustjóri á svæðinu, segir að Hawkins geti trúlega þakkað bróður sínum fyrir að vera á lífi. Ef hann hefði ekki náð að fanga athygli bjarnarins hefði líklega farið verr.
Hawkins var færður undir læknishendur en hann fékk meðal annars skurð á nef og á handlegg. Meiðsli hans voru sem betur fer ekki alvarleg.
Árásir bjarndýra á fólk eru ekki mjög algengar í Arizona en frá árinu 1990 hafa sextán slík tilfelli komið upp og tveir látist.