Live Science segir að vísindamenn hafi vitað að sumarið 2023 hafi verið metsumar. Meðalhitinn hafi verið hærri en nokkru sinni síðan 1850. Hins vegar eru engar mælingar til fyrir þann tíma og þau gögn sem eru til eru götótt að því er segir í nýrri rannsókn sem hefur verið birt í vísindaritinu Nature.
Vísindamennirnir ákváðu því að leita upplýsinga með því að skoða trjáhringi en þeir geta veitt ýmsar upplýsingar.
Tré veita okkur upplýsingar um veðurfarið aftur í tímann því þau eru viðkvæm fyrir breytingum á úrkomu og hitastigi. Þessar upplýsingar eru „ritaðar“ í vaxtarhringi þeirra sem eru breiðari þegar árin eru hlý og blaut en þegar þau eru köld og þurr.
Vísindamennirnir rannsökuðu slíka hringi allt aftur til tíma Rómarveldis og komust að þeirri niðurstöðu að sumarið 2023 hafi verið það hlýjast á þessu 2.000 ára tímabili og var þá búið að taka náttúrulegar sveiflur í náttúrunni með í reikninginn.