En það þarf ekki endilega að nota sérstakt hægðalosandi efni því það er að sögn hægt að koma hægðunum í lag með því að borða ákveðinn mat áður en farið er í háttinn að kvöldi til. Á kerfið þá að vera komið í lag næsta morgun.
Eftir því sem EatingWell segir þá er hægðatregða eitthvað sem leggst á marga. Til dæmis glíma 16% fullorðinna Bandaríkjamanna við hægðatregðu. Ef aðeins er horft til aldurshópsins yfir sextugu, þá er hlutfallið 33%.
Ef þú lendir oft í því að fá hægðatregðu, þá getur ástæðuna verið að finna í mataræði þínu. Það hvernig þú borðar getur haft áhrif á meltinguna.
Isabel Vasquez, næringarfræðingur, segir að algengasta orsök hægðatregðu sé skortur á trefjum. „Trefjaríkt fæði hjálpar til við að bæta massa og vatni við hægðirnar og það hjálpar matnum að komast hraðar í gegnum kerfið,“ sagði hún að sögn New York Post.
Hún sagði að kjúklingabaunir séu góður matur til að koma hægðunum í lag. Þær innihalda mikið af trefjum og það er auðvelt að tilreiða þær á einfaldan hátt. Til dæmis er hægt að opna dós, krydda baunirnar og skella í ofninn. Ef þær eru eldaðar á réttan hátt, eru þær ekki aðeins bragðgóðar, heldur einnig fullar af næringarefnum og þarmavinalegum efnum.